Starfsmannastefna

Markmið

Markmið Gildis er að hafa á að skipa hæfu, traustu og áhugasömu starfsfólki sem vinnur sem ein heild í góðu starfsumhverfi. Vegna þess vill sjóðurinn laða til sín metnaðarfullt starfsfólk með viðeigandi menntun og bjóða því aðstöðu til að þroskast í starfi. Lögð er áhersla á að starfsfólk sé vel upplýst um skyldur sínar og sýni bæði ábyrgð og frumkvæði.

Verkefni og skyldur starfsfólks eru tilgreind í ráðningarsamningum og einnig geta stjórnendur sjóðsins falið því tilfallandi verkefni. Lögð er áhersla á að starfsfólk sjóðsins sé upplýst á hverjum tíma um þær kröfur sem til þess eru gerðar og þá ábyrgð sem á því hvílir bæði samkvæmt ráðningarsamningum, samþykktum sjóðsins sem og lögum og reglum sem um lífeyrissjóði gilda.

Gildin

Starfsfólk Gildis hefur eftirtalin gildi sérstaklega til hliðsjónar í störfum sínum.

Jákvæðni:
Starfsfólk hefur jákvæðni að leiðarljósi í samskiptum við sjóðfélaga og aðra starfsmenn.

Heiðarleiki:
Starfsfólk er heiðarlegt og traust í störfum sínum og tekur ábyrgð á ákvörðunum og gjörðum í starfi.

Fagmennska:
Starfsfólk sýnir fagmennsku og virðingu fyrir samstarfsaðilum og sjóðfélögum og býður upp á trygga og góða þjónustu.

Nánari útfærsla

1. Ráðningar og móttaka nýrra starfsmanna
Laus störf hjá sjóðnum standa öllum opin, óháð kyni umsækjenda eða annarri stöðu. Val á starfsfólki við ráðningu byggir á faglegum vinnubrögðum þar sem áhersla er lögð á hæfni og tillit tekið til jafnréttissjónarmiða. Lögð er áhersla á að taka vel á móti nýju starfsfólki sem fær viðeigandi fræðslu um starfsemi sjóðsins við upphaf starfs. Næsti yfirmaður ber ábyrgð á móttöku nýrra starfsmanna.


2. Starfsþróun og fræðsla
Markmið Gildis er að starfsfólk viðhaldi nauðsynlegri sérþekkingu sem við á í sérhverju starfi innan sjóðsins og sé vel upplýst um verkefni sín og tilgang í starfi. Starfsmenn eiga allir jafna möguleika til starfa og starfsþróunar.

3. Starfsmannaviðtöl
Starfsfólk er boðað í starfsmannaviðtöl að minnsta kosti einu sinni á ári. Markmið með viðtölunum er að styðja við starfsfólk, meta frammistöðu þess en ekki síður hvetja það til að tjá sig um atriði sem geta bætt vinnubrögð og vinnuferla innan sjóðsins, viðhaldið góðum starfsanda og aukið starfsánægju. Einnig er í viðtölunum reynt að greina þörf fyrir frekari fræðslu einstakra starfsmanna.

4. Starfsánægja og vinnuumhverfi
Áhersla er lögð á að góður starfsandi ríki innan sjóðsins og að starfsfólki líði vel í starfi. Hjá Gildi leggja allir sitt af mörkum til að skapa góðan starfsanda. Samskipti og framkoma starfsfólks einkennist af heiðarleika, virðingu og trausti. Starfsfólk er hvatt til sjálfstæðis í vinnubrögðum og til að tjá sig um hvað því finnst miður/vel fara á vinnustaðnum. Lögð er áhersla á að bjóða upp á heilbrigt, öruggt og hvetjandi starfsumhverfi.

5. Jafnrétti og virðing í samskiptum
Lögð er áhersla á að starfsmenn njóti þeirra réttinda sem kveðið er á um í lögum, reglum og samningum um jafnréttismál. Sérstaklega er þar horft til greina 19.-22. í lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Fyllsta jafnréttis er gætt í öllum störfum og verkefnum sjóðsins. Hver starfsmaður sjóðsins er metinn að verðleikum, óháð uppruna, kynferði, kynhneigð, aldri, þjóðerni eða trú. Virðing, umburðarlyndi og jákvætt viðmót í samskiptum jafnt innan sjóðsins sem utan er til þess fallið að auka ánægju starfsfólks og sjóðfélaga.

Lögð er sérstök áhersla á eftirfarandi þætti:

  • Einelti, ofbeldi, fordómar og kynbundin eða kynferðisleg áreitni eru ekki liðin innan Gildis.
  • Gildi greiðir konum og körlum jöfn laun og sömu kjör fyrir jafnverðmæt störf. Sjóðurinn hefur sett sér jafnlaunastefnu sem mælir nánar fyrir um framkvæmd þessa og telst hún hluti starfsmannastefnu þessarar.
  • Hvers kyns mismunun í andstöðu við stefnu þessa er ekki liðin.
  • Engin störf innan Gildis eru skilgreind sem karla- eða kvennastörf.

Komi upp slík mál eða ef starfsfólk telur á sér brotið á einhvern annan hátt er það hvatt til að leita þegar til framkvæmdastjóra sjóðsins eða skrifstofustjóra. Einnig er unnt að koma ábendingum eða kvörtunum á framfæri við trúnaðarmann, öryggistrúnaðarmann eða utanaðkomandi aðila, sem starfsfólk er upplýst um á hverjum tíma, sem koma slíkum málum í viðeigandi farveg.


6. Heilsustefna
Gildi er umhugað um heilsu starfsfólks og að það leggi rækt við eigin heilsu. Veittir eru líkamsræktarstyrkir til að stuðla að bættri líðan og heilsu starfsfólks. Þá standa heilsufarsmælingar starfsfólki reglulega til boða.


7. Fjölskyldustefna
Gildi leggur áherslu á að vera fjölskylduvænn vinnustaður sem gerir starfsfólki kleift að samhæfa starf sitt og ábyrgð gagnvart fjölskyldu. Starfsfólk er hvatt til að nýta fæðingarorlofsrétt sinn.


8. Starfslok
Ákvörðun um starfslok vegna aldurs er tekin í samráði við viðkomandi starfsmann. Sé starfsmanni sagt upp hefur hann rétt á að krefjast skriflegra skýringa óski hann eftir því.


9. Eftirfylgni
Starfsmannastefnan er sett upp í samræmi við stefnumótun og markmið sjóðsins. Framkvæmdastjóri fyrir hönd stjórnar ber ábyrgð á að stefnunni sé framfylgt.