Lögbundin iðgjöld

Samkvæmt lögum er launafólki skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði sinnar starfsstéttar. Sömu lög kveða á um að iðgjald nemi 15,5%. Launþegi leggur þá til 4% og vinnuveitandi 11,5%. Mótframlagið ræðst þó af kjarasamningum og er í einhverjum tilfellum lægra. 

Iðgjöld

Samkvæmt lögum sem tóku gildi 1. janúar 2023 nemur mótframlag launagreiðanda 11,5% en framlag launþega er 4%. Í einstökum kjarasamningum er þó kveðið á um lægra framlag, t.d. á það við um kjarasamning sjómanna.

Launagreiðendur eru hvattir til að kynna sér samninga um iðgjöld hjá viðeigandi stéttarfélögum eða hjá SA.



Endurgreiðsla iðgjalda til erlendra ríkisborgara

Gildi-lífeyrissjóður endurgreiðir ekki iðgjöld til erlendra ríkisborgara.

Í samþykktum Gildis er að finna heimild til endurgreiðslu sjóðfélaga utan EES (grein 16.1) en samkvæmt ákvörðun stjórnar Gildis frá árinu 2013 er hún ekki nýtt. Með því er tryggt að allir sjóðfélagar sitja við sama borð. Allir sjóðfélagar geta hafið töku ellilífeyris við 60 ára aldur eða fengið greiddan örorkulífeyri ef slys eða veikindi skerða starfsgetu. Makar og börn eiga ennfremur rétt á maka- eða barnalífeyri við fráfall sjóðfélaga.


Aðildarfélög Gildis

Tíu stéttarfélög eiga aðild að Gildi. Öllum atvinnurekendum með rekstur í þeim starfsgreinum sem stéttarfélögin tíu hafa gert kjarasamning um, er skylt að greiða lífeyrisiðgjöld starfsmanna sinna til samtryggingar Gildis.

Ásamt stéttarfélögunum tíu eiga Samtök atvinnulífsins aðild að Gildi.

Iðgjöldin eru greidd í þeim hlutföllum sem viðkomandi kjarasamningur greinir. Aðild að Gildi er þannig skyldubundin og óheimilt að greiða í samtryggingarsjóði annarra lífeyrissjóða.