Skipting ellilífeyris

Sjóðfélagi og maki geta gert samning um gagnkvæma skiptingu ellilífeyrisréttinda. Samning um slíka skiptingu þegar áunninna réttinda þarf að gera áður en taka lífeyris hefst og fyrir 65 ára aldur þeirra sem samninginn gera. Skiptingin nær einungis til réttinda sem hafa myndast á meðan staðfest sambúð eða hjónaband hefur varað.

Báðir aðilar þurfa að undirrita samning, leggja þarf fram sambúðar og/eða hjúskaparvottorð sem staðfestir það tímabil sem skipta ber samkvæmt samningi auk þess sem báðir aðilar þurfa að leggja fram heilbrigðisvottorð undirritað af lækni. Heilbrigðisvottorðin eru send trúnaðarlækni sjóðsins til yfirferðar.

Við ráðleggjum þér að hafa samband við ráðgjafa hjá lífeyrissjóðnum þínum til að meta hvort slíkur samningur hentar þér og þínum maka.

Nánari upplýsingar um skiptingu ellilífeyris

Í lögum um lífeyrissjóði er ákvæði sem heimilar sjóðfélögum að semja við maka sína um gagnkvæma og jafna skiptingu áunninna ellilífeyrisréttinda.

Þrjár leiðir eru mögulegar í samningum hjóna og fólks í sambúð varðandi skiptingu

  1. að skipta áunnum lífeyrisréttindum,
  2. að skipta framtíðarréttindum (iðgjaldinu) og
  3. að skipta greiðslum þegar taka lífeyris er hafin.

Slíkir samningar verða að vera gagnkvæmir og jafnir og þeir taka aðeins til ellilífeyris og eftirlauna frá lífeyrissjóðum en ekki til makalífeyris- eða örorkulífeyrisréttinda.  Skiptingin nær til ellilífeyrisréttinda sem aðilar hafa áunnið sér á þeim tíma sem hjúskapur eða sambúð hefur staðið.

Samning um skiptingu réttinda þarf að gera áður en aðilar ná 65 ára aldri og áður en taka ellilífeyris hefst. Þá er skilyrði að heilsufar samningsaðila dragi ekki úr lífslíkum þeirra.

Margt þarf að hafa í huga þegar skoðað er hvort skipting ellilífeyrisréttinda henti og aðstæður fólks geta verið þannig að samningar um réttindaskiptingu séu beinlínis óskynsamlegir.  Sem dæmi getur skipt máli hvernig makalífeyrisréttindum aðila er háttað svo og hvaða áhrif skipting réttinda hefur á greiðslur frá almannatryggingum. Rétt er að benda á að þegar ellilífeyrisréttindum hefur verið skipt er sú skipting endanleg og gengur ekki til baka þegar annar aðili fellur frá.  Annað gildir um skiptingu ellilífeyrisgreiðslna.

Samningar um skiptingu lífeyrisréttinda eru tiltölulega fátíðir, einhverra hluta vegna. Heimildin er vissulega til staðar og hefur lengi verið.  Þetta eru möguleikar sem vert er að fólk í hjúskap eða sambúð kynni sér og leiti ráða hjá starfsfólki lífeyrissjóða sinna.

Þá er leiðbeiningar, samningseyðublað og upplýsingar um verkferla og fleira að finna á heimasíðu Landssamtaka lífeyrissjóða.