Gildi hefur gefið út uppfærða stefnu um sjálfbærar og ábyrgar fjárfestingar. Í stefnunni er lögð aukin áhersla á sjálfbærniáhættu í fjárfestingastarfsemi sjóðsins með það að markmiði að stuðla að bæði betri langtímaávöxtun og minni áhættu.
Byggir stefnan á þeirri afstöðu að sjálfbærar og ábyrgar fjárfestingar, sem felst m.a. í því að taka mið af umhverfislegum þáttum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS), skili sér í betri langtímaárangri. Með því að innleiða þessa þætti í ákvörðunartöku við fjárfestingar og eftirfylgni þeirra stuðlar sjóðurinn að því að eignasafn hans taki mið af sjálfbærri þróun og samfélagslegri ábyrgð, á sama tíma og gætt er að því að hagsmunir sjóðfélaga séu hafðir í fyrirrúmi með bættri langtímaávöxtun og áhættustýringu.
Stefnan er höfð til hliðsjónar við ákvarðanir sjóðsins um einstakar fjárfestingar og við greiningu á eignasafni sjóðsins í heild.
Aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga er í stöðugri þróun og stefnunni er ekki ætlað að vera tæmandi.
Stefna Gildis um ábyrgar fjárfestingar var upphaflega sett árið 2017 og var í henni lögð áhersla á stjórnarhætti og innlendar fjárfestingar. Uppfærð stefna, sem samþykkt var af stjórn sjóðsins í desember síðastliðnum, tekur mið af þróun síðustu ára og skapar ramma utan um þær breytingar sem hafa orðið í framkvæmd sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga.
Stefnuna má finna í heild sinni hér.