Stefna um ábyrgar fjárfestingar

1. Inngangur

Samkvæmt 36. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða skal lífeyrissjóður setja sér siðferðisleg viðmið í fjárfestingum. Stefna þessi um ábyrgar fjárfestingar, ásamt hluthafastefnu sjóðsins, setur fram viðmið sjóðsins í þessum efnum.

Með ábyrgum fjárfestingum er átt við að litið sé til umhverfismála, félagslegra málefna og stjórnarhátta í fjárfestingum. Gildi-lífeyrissjóður leggur sérstaka áherslu á stjórnarhætti og fjallar hluthafastefna sjóðsins um hvernig sjóðurinn beitir sér sem eigandi í því samhengi. Vísast til hluthafastefnu sjóðsins varðandi stefnu Gildis-lífeyrissjóðs sem eiganda á sviði stjórnarhátta.

Gildi-lífeyrissjóður er hlutfallslega stór fagfjárfestir á íslenskum verðbréfamarkaði. Stærð sjóðsins á erlendum vettvangi er hlutfallslega lítil í samanburði við stærð fyrirtækja, sjóða og annarra fjárfesta á þeim mörkuðum. Gildi-lífeyrissjóður hefur af þessum sökum minni möguleika til þess að beita sér erlendis, nema í þeim tilfellum þegar stærð eignarhlutar gefur tilkall til þess. Sjóðurinn nær fram eignadreifingu erlendis með fjárfestingu í sjóðum en að jafnaði ekki í einstökum fyrirtækjum. Lögð er áhersla á innlendar fjárfestingar í stefnu þessari auk þess sem áhersla er lögð á innlend fyrirtæki í hluthafastefnu sjóðsins.

Stefna þessi um ábyrgar fjárfestingar tekur til beinna fjárfestinga sjóðsins í (i) skráðum fyrirtækjum og (ii) sjóðum (að undanskildum vísitölusjóðum) sem fjárfesta aðallega í hlutabréfum, s.s. verðbréfasjóðum, fjárfestingarsjóðum og öðrum sjóðum um sameiginlega fjárfestingu. Mögulegt er að líta til grundvallarsjónarmiða stefnunnar við aðrar fjárfestingar eftir því sem við á. Nánar er fjallað um framkvæmd stefnunnar gagnvart innlendum fjárfestingum í gr. 4.a. og erlendum fjárfestingum í gr. 4.b.

2. Markmið stefnunnar

Gildi-lífeyrissjóður er langtímafjárfestir og hefur það að markmiði að hámarka lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga og tryggja þeim bestu lífeyrisréttindi sem kostur er á með ávöxtun iðgjalda, áhættustýringu og hagkvæmum rekstri, í samræmi við fjárfestingarstefnu sjóðsins á hverjum tíma. Fjárfestingastefna Gildis-lífeyrissjóðs er sett af stjórn sjóðsins ár hvert og markar hún stefnu um hvernig eignasamsetningu sjóðsins skuli háttað að teknu tilliti til ávöxtunar og áhættu.

Markmið stefnu þessarar um ábyrgar fjárfestingar er að marka stefnu Gildis-lífeyrissjóðs sem eiganda í þeim félögum sem hann fjárfestir í á sviði umhverfismála og félagslegra málefna. Gildi-lífeyrissjóður tekur tillit til þessara þátta að því marki sem rúmast innan framangreindra heildarmarkmiða sjóðsins um hámörkun lífeyrisréttinda til sjóðfélaga. Gildi-lífeyrissjóður lítur svo á að tillit til þessara þátta geti verið grundvöllur langtímaávöxtunar sjóðsins.

3. Um framkvæmd stefnunnar

Stefna um ábyrgar fjárfestingar er höfð til hliðsjónar við ákvarðanir Gildis-lífeyrissjóðs um einstakar fjárfestingar og eftirfylgni með slíkum fjárfestingum, ásamt því að vera til hliðsjónar við mótun og endurskoðun fjárfestingarstefnu sjóðsins.

Framkvæmdastjóri annast framkvæmd stefnunnar í samráði við stjórn og starfsmenn sjóðsins. Við framkvæmd stefnunnar skal gætt að viðeigandi reglum um hagsmunaárekstra og vanhæfi.

4. Framkvæmd ábyrgra fjárfestinga

Stefna Gildis-lífeyrissjóðs sem eiganda er að standa vörð um hagsmuni sjóðfélaga sjóðsins til lengri og skemmri tíma. Gildi-lífeyrissjóður beitir sér sem eigandi, sbr. að neðan, í þeim tilgangi að stuðla að langtímahagsmunum og sjálfbærni þeirra félaga sem sjóðurinn fjárfestir í. Grunngildi sjóðsins á sviði umhverfismála og félagslegra málefna byggja á grunngildum íslenska ríkisins, sem meðal annars birtast í ákvæðum stjórnarskrár og almennra laga.

Gildi-lífeyrissjóður lætur umhverfismál og félagsleg málefni sig varða og lætur til sín taka ef atvik koma upp á þessum sviðum, sbr. að neðan, með það að markmiði að hafa áhrif á viðhorf og stefnu þeirra félaga sem sjóðurinn fjárfestir í til umhverfismála og félagslegra málefna.

a. Innlendar fjárfestingar
Skráðum fyrirtækjum ber að upplýsa árlega um mat á þróun, umfangi, stöðu og áhrifum fyrirtækisins í tengslum við umhverfis-, félags- og starfsmannamál eins og við getur átt og jafnframt gera grein fyrir stefnu fyrirtækisins í mannréttindamálum og hvernig viðkomandi spornar við spillingar- og mútumálum eins og við getur átt, sbr. 66. gr. d. í lögum nr. 3/2006 um ársreikninga. Gildi-lífeyrissjóður hvetur til greinargóðrar upplýsingagjafar fyrirtækja um atriði er þau varða á sviði umhverfismála og félagslegra málefna með áhersluá þau svið sem eru viðeigandi viðkomandi rekstri.

Tengist fyrirtæki skráð á innlendan markað broti á sviði umhverfismála og félagslegra málefna að áliti lögbærra yfirvalda er það markmið sjóðsins að beita sér sem eigandi þannig að látið verði af viðkomandi broti án tafar og jafnframt farið fram á að gripið sé til viðeigandi ráðstafana í því skyni að tryggja að ekki komi til sambærilegra atvika aftur. Ef slíkar aðgerðir bera ekki fullnægjandi árangur mun sjóðurinn taka til skoðunar sölu viðkomandi eignarhlutar í heild eða að hluta og getur við viðvarandi eða ítrekuð brot útilokað einstakar fjárfestingar þar til fullnægjandi úrbætur hafa verið gerðar. Með því að beita sér með þessum hætti getur Gildi-lífeyrissjóður haft uppbyggileg áhrif á háttsemi fyrirtækja til lengri tíma og tekið að sama skapi tillit til heildarmarkmiða sjóðsins.

Gildi-lífeyrissjóður hefur væntingar til þess að eignastýringaraðilar sem sjóðurinn er í viðskiptum við beiti sér eftir því sem við á með sambærilegum hætti gagnvart fjárfestingum sínum. Kallað er eftir því hvort eignastýringaraðilar hafi sett sér stefnu í umhverfismálum og félagslegum málefnum áður en fjárfest er í viðkomandi sjóðum. Slíkar stefnur eru ekki skilyrði fjárfestingar í viðkomandi sjóði og fram fer mat á grundvelli heildarmarkmiða sjóðsins.

b. Erlendar fjárfestingar
Sjóðurinn getur ákveðið að styðja aðgerðir annarra fjárfesta er snúa að umhverfismálum og félagslegum málefnum þegar atvik koma upp ásamt því að beita sér sjálfur ef eignarhald sjóðsins í viðkomandi fyrirtæki gefur tilefni til þess. Kallað er eftir því hvort eignastýringaraðilar sjóða hafi sett sér stefnu í umhverfismálum og félagslegum málefnum áður en fjárfest er í viðkomandi sjóðum. Slíkar stefnur eru ekki skilyrði fjárfestingar í viðkomandi sjóði og fram fer mat á grundvelli heildarmarkmiða sjóðsins.

5. Endurskoðun og birting

Stefna þessi skal endurskoðuð af stjórn Gildis-lífeyrissjóðs árlega og eftir því sem tilefni gefst til. Stefna þessi skal birt á heimasíðu sjóðsins. Allar breytingar sem kunna að verða gerðar á stefnunni skulu jafnframt birtar á heimasíðu.


Stefnan var upphaflega sett af stjórn sjóðsins þann 28. júní 2017. Hún var síðast yfirfarin af stjórn 25. febrúar 2021.