11. apríl 2017

Ársskýrsla Gildis-lífeyrissjóðs 2016

Ársskýrsla Gildis-lífeyrissjóðs 2016 er komin út. Í henni er gerð ítarleg grein fyrir starfsemi sjóðsins á árinu.

Árið var lífeyrissjóðum nokkuð þungt í skauti á fjármálamörkuðum. Nafnávöxtun Gildis var 1,2% á árinu sem nemur -0,9% hreinni raunávöxtun. Nafnávöxtun af skuldabréfum og innlánum var 5,9% og nafnávöxtun innlendra hlutabréfa í safni sjóðsins nam 2% sem telja má viðunandi samanborið við 9% lækkun Úrvalsvísitölu Nasdaq Iceland. Íslenska krónan styrktist mikið á árinu sem hafði umtalsverð áhrif til hins verra á afkomu lífeyrissjóða. Hlutfall eigna Gildis í erlendri mynt nam 27,1% í árslok.

„Gengi krónunnar hefur mest áhrif á afkomuna árið 2016, bæði hjá okkur og öðrum lífeyrissjóðum,“ segir Árni Guðmundsson framkvæmdastjóri Gildis. „Markmið okkar er að auka áhættudreifingu í eignasafni sjóðsins. Hluti af því er að auka vægi erlendra fjárfestinga á sama tíma og dregið er úr áhættu á innlendum markaði. Lífeyrissjóðir eru langtímafjárfestar og því ber að varast að draga miklar ályktanir af ávöxtun eins árs í senn.“