Gildi-lífeyrissjóður varð til árið 2005 við sameiningu Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna. Aðdragandi sameiningarinnar var skammur, eða rúmt ár, því að í apríl 2004 gerðu stjórnir sjóðanna tveggja með sér samkomulag um að láta kanna hagkvæmni sameiningar. Skipuð var viðræðunefnd og í kjölfar vinnu hennar var sameining samþykkt á ársfundum Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna, sem haldnir voru 27. apríl 2005. Að ársfundunum loknum var haldinn stofnfundur þar sem samþykkt var að nýr sjóður fengi nafnið Gildi-lífeyrissjóður og að hann tæki formlega til starfa 1. júní 2005. Árni Guðmundsson var í framhaldi ráðinn framkvæmdastjóri.
Fyrsti stjórnarformaður Gildis var Ari Edwald, og í ávarpi hans til sjóðfélaga í ársskýrslu sjóðsins að loknu fyrsta starfsári sagði um sameininguna. „Ég ætla að það sé nú þegar mat flestra að sameining sjóðanna hafi verið mikið gæfuspor.“ Ari talaði í ávarpi sínum um mikilvægi þess að styrkja hæfni sjóðsins til eignastýringar í flóknu umhverfi þar sem stærri hluti eigna sjóðsins muni þurfa að ávaxtast erlendis og þróuðum áhættuvörnum þurfi að beita. „Síðast en ekki síst er stefnt að því að sjóðurinn veiti góða þjónustu og að rekstur hans sé eins hagkvæmur og frekast er kostur“ sagði hann einnig.
Fyrsta stjórn Gildis-lífeyrissjóðs. Frá vinstri: Sigurður Bessason, Konráð Alfreðsson, Friðrik J. Arngrímsson, Þórunn Sveinbjörnsdóttir, Ari Edwald formaður, Höskuldur H. Ólafsson, Helgi Laxdal varaformaður og Sveinn Hannesson.
Í lok maímánaðar árið 2014 leitaði stjórn Lífeyrissjóðs Vestfirðinga til stjórnar Gildis og óskaði eftir formlegum viðræðum um samruna sjóðanna. Stjórn Gildis varð við beiðninni og eftir viðræður sem fóru fram síðsumars var samrunasamningur samþykktur í stjórnum beggja sjóða 19. september. Sameining sjóðanna öðlaðist gildi 1. janúar 2015. Í ávarpi Þorsteins Víglundssonar, þáverandi stjórnarformanns, í ársskýrslu sjóðsins fyrir árið 2015 sagði m.a.: Sameiningin hefur gengið vel fyrir sig og er það trú mín að hún verði til hagsbóta fyrir sjóðfélaga. Ljóst er að rekstur smærri lífeyrissjóða er hlutfallslega nokkuð dýrari en stærri sjóða á borð við Gildi og munu fyrrum sjóðfélagar Lífeyrissjóðs Vestfirðinga njóta nokkurs hagræðis af sameiningunni. Sameinaður sjóður stendur sterkari á eftir.“
Ef horft er ennþá lengra aftur í tímann má sjá að Gildi-lífeyrissjóður byggir á gömlum en traustum grunni. Lífeyrissjóður sjómanna var stofnaður með lögum í júní 1958 og hóf starfsemi sama ár. Aðdragandinn að stofnun sjóðsins var sá að árið 1957 kom til mikillar kjaradeilu milli togarasjómanna og útvegsmanna. Til þess að miðla málum í deilunni og koma í veg fyrir beina kauphækkun eða verkfall komst ríkisstjórnin að samkomulagi við Sjómannafélag Reykjavíkur og hét að beita sér fyrir því, að stofnaður yrði sérstakur lífeyrissjóður fyrir togarasjómenn gegn því að þeir segðu ekki upp kaup- og kjarasamningum.
Lífeyrissjóðurinn Framsýn hóf starfsemi sína þann 1. janúar árið 1996 en hann varð til við sameiningu Lífeyrissjóðs Dagsbrúnar og Framsóknar, Lífeyrissjóðs Hlífar og Framtíðarinnar, Lífeyrissjóðs Sóknar, Lífeyrissjóðs verksmiðjufólks, Lífeyrissjóðs Félags starfsfólks í veitingahúsum og Almenns lífeyrissjóðs iðnaðarmanna. Allir þessir sjóðir áttu sér langa og áhugaverða sögu.
Heildareignir Gildis hafa aukist hratt frá stofnun sjóðsins árið 2005. Við lok fyrsta starfsárs námu þær rúmlega 181 milljarði króna en þær námu við lok ársins 2021 ríflega 916 milljörðum króna. Ástæðan fyrir þessum mikla vexti liggur ekki síst í góðri ávöxtun en hrein nafnávöxtun sjóðsins á árinu 2021 nam til að mynda 17,8% á meðan hrein raunávöxtun nam 12,4. Í lok árs 2021 nam hrein raunávöxtun að meðaltali tíu árin þar á undan 7,1% og 4,8% ef tuttugu ára tímabil var skoðað. Ávöxtun skiptir sjóðfélaga augljóslega miklu máli en ávöxtun og sterkir innviðir gera Gildi að öflugum bakhjarli sjóðfélaga sinna.
Þegar stærð lífeyrissjóða er metin er yfirleitt horft á hreinar eignir þeirra. Út frá þeim mælikvarða er Gildi þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins með, eins og áður hefur komið fram, ríflega 916 milljarða króna eignir í árslok 2021. En eignasafnið segir aðeins hluta sögunnar. Fjöldi sjóðfélaga hefur einnig talsvert að segja, enda þarf að halda utan um réttindi allra þeirra sem eiga réttindi hjá sjóðnum, innheimta iðgjöld virkra sjóðfélaga, afgreiða umsóknir þeirra sem vilja hefja töku lífeyris, veita lán og margt fleira. Fjöldi þeirra sem eiga einhver réttindi hjá sjóðnum var 251.920 í árslok 2021. Enginn lífeyrissjóður kemst þarna nálægt Gildi en næst stærstur í þessu samhengi er Lífeyrissjóður verzlunarmanna. Ef starfsemin er skoðuð út frá fjölda virkra sjóðfélaga annars vegar og hins vegar þeirra sem fá greiddan lífeyri frá sjóðnum er Gildi næst stærsti lífeyrissjóður landsins. Virkir sjóðfélagar, þ.e. þeir sem greiddu iðgjöld til sjóðsins á árinu 2021, voru alls um 52.859 talsins og um 26.500 fengu greiddan lífeyri frá sjóðnum sama ár.
Átta skipa stjórn Gildis-lífeyrissjóðs, fjórir eru kjörnir fyrir hönd sjóðfélaga og fjórir tilnefndir af Samtökum atvinnulífsins. Varamenn í stjórn eru fjórir og eru þeir kosnir eða skipaðir í sömu hlutföllum af sjóðfélögum eða Samtökum atvinnulífsins. Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár og er helmingur sæta stjórnarmanna og varamanna undir árlega. Fulltrúar sjóðfélaga og vinnuveitanda gegna formennsku stjórnar til skiptis í eitt ár í senn. Stjórnin fer með yfirstjórn sjóðsins og fjallar hún um allar meiriháttar ákvarðanir er varða stefnumótun og starfsemi Gildis.
Níu stéttarfélög eiga aðild að sjóðnum og er öllum atvinnurekendum með rekstur í þeim starfsgreinum sem félögin hafa gert kjarasamning um skylt að greiða lífeyrisiðgjöld starfsmanna sinna til Gildis. Félögin sem eiga aðild að Gildi eru þessi:
Gildi er í grunninn hefðbundinn lífeyrissjóður sem hefur þrjú meginhlutverk, að taka við iðgjöldum, ávaxta fjármuni sjóðfélaga og greiða þeim síðan út lífeyri.
Yfirstjórn Gildis samanstendur af framkvæmdastjóra, forstöðumanni eignastýringar, skrifstofustjóra og yfirlögfræðingi sem einnig er staðgengill framkvæmdastjóra . Yfirstjórn stýrir daglegum rekstri sjóðsins í umboði stjórnar. Rekstur sjóðsins skiptist til viðbótar í fjórar megindeildir auk stoðdeilda. Iðgjaldadeild sér um að taka á móti og innheimta iðgjöld sjóðfélaga. Einnig sér deildin um að innheimta iðgjöld nokkurra stéttarfélaga sem eiga aðild að sjóðnum. Eignastýring sér um að ávaxta eignir sjóðsins en lífeyrisdeild tekur á móti lífeyrisumsóknum sjóðfélaga, reiknar út réttindi þeirra og tryggir að þeir fái greitt hvort sem um er að ræða elli-, örorku-, maka- eða barnalífeyri. Gildi starfrækir enn fremur séreignardeild og hafa sjóðfélagar val um þrjár mismunandi fjárfestingarleiðir innan deildarinnar.
Umhverfið sem lífeyrissjóðir landsins starfa í verður sífellt flóknara og starfsemin umfangsmeiri og er reksturinn því talsvert flóknari en þessi einfalda sviðsmynd hér fyrir ofan gefur til kynna. Hjá Gildi starfa fjölmargir sérfræðingar sem sinna margskonar verkefnum í nokkrum undirdeildum. Sá þáttur í starfseminni sem vaxið hefur hvað hraðast undanfarin ár eru lánveitingar til sjóðfélaga og sinnir sérstök deild innan sjóðsins lántakendum.