Gildi-lífeyrissjóður er langtímafjárfestir og hefur það að aðalmarkmiði að hámarka lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga og tryggja þeim bestu lífeyrisréttindi sem kostur er á skv. samþykktum með ávöxtun iðgjalda, áhættustýringu og hagkvæmum rekstri. Áhættustýringarstefna fjallar um helstu efnisþætti og framkvæmd formlegrar áhættustýringar sjóðsins, bæði hvað varðar fjárhagslega áhættu og rekstraráhættu. Markmið með stefnunni er að formfesta vinnulag til greiningar, mats og stýringar á helstu áhættuþáttum sjóðsins og stuðla þannig að auknu öryggi í rekstri sjóðsins og minni líkum á því að réttindi sjóðfélaga til greiðslu lífeyris skerðist.
Stjórn Gildis setur áhættustefnu fyrir sjóðinn. Áhættustefnan nær yfir starfsemi Gildis og útvistun til þriðju aðila, bæði hvað varðar fjárhagslega áhættu og rekstraráhættu. Áhættustefnan skilgreinir áhættuvilja og áhættuþol sjóðsins og hvernig skuli greina, meta, vakta og stýra áhættu. Auk þess kemur fram hlutverk og ábyrgð þeirra sem koma að framkvæmd áhættustýringar og áhættueftirlits innan sjóðsins. Fjárfestingarstefna sjóðsins, sem er endurskoðuð a.m.k. árlega, er mikilvægur þáttur í áhættustýringu en þar eru settar fram takmarkanir og viðmið um helstu fjárhagslega áhættuþætti. Áhættustefnuna skal endurskoða árlega, eða oftar ef tilefni er til, m.a. ef markverðar breytingar verða á áhættusniði sjóðsins. Stjórn sjóðsins setur einnig áhættustýringarstefnu að fenginni tillögu ábyrgðaraðila áhættustýringar. Í áhættustýringarstefnu er fjallað ítarlega um framkvæmd áhættustýringar sjóðsins.
Áhættustefna sjóðsins byggir á lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, reglugerð nr. 590/2017 um eftirlitskerfi með áhættu lífeyrissjóða og reglugerð nr. 916/2009 um fjárfestingarstefnu og úttekt á ávöxtun lífeyrissjóða og vörsluaðila séreignarsparnaðar, með síðari breytingum. Áhættustýring innan sjóðsins tekur einnig mið af ISO staðli 31000 um áhættustýringu.
Skilgreining á hugtakinu áhætta í reglugerð nr. 590/2017 um eftirlitskerfi með áhættu lífeyrissjóða er eftirfarandi: „Hætta á fjárhagslegu tapi sem leiðir af atburði og fellur undir einn eða fleiri af þeim áhættuþáttum sem lífeyrissjóður skilgreinir.“
Áhættustýring er skilgreind sem þær áherslur, reglur, verkferlar, verklag, aðferðafræði og samantekt upplýsinga sem beitt er til að greina, mæla, meta, stýra og fylgjast með áhættu í eignasafni og starfsemi sjóðsins (í víðu samhengi).
Leitast skal við að hafa skipulag þeirra verkþátta er lúta að áhættu í starfsemi Gildis sem einfaldast til að tryggja rekjanleika og í samræmi við önnur gildi sjóðsins. Áhættustefnu Gildis er ætlað að styðja við það markmið fjárfestingarstefnu, að ávaxta fé sjóðsins með hliðsjón af hagfelldustu kjörum sem í boði eru á hverjum tíma með tilliti til áhættu.
Almennt skal miða við varfærna nálgun við stýringu á áhættu sjóðsins og að uppbygging eignasafns í heild taki mið af verðtryggðum skuldbindingum í íslenskum krónum núvirtum á 3,5% vöxtum gagnvart sjóðfélögum og eign rétthafa. Markmið með áhættustýringu er að starfsmenn og stjórn sjóðsins hafi góða yfirsýn yfir þá áhættuþætti sem til staðar eru hjá sjóðnum og geti metið hugsanleg áhrif þeirra á sjóðinn. Með því móti eru starfsmenn sjóðsins betur í stakk búnir til að stýra áhættu hans og, eftir atvikum, forðast áhættu, draga úr eða auka hana.
Almennt byggir áhættueftirlit og áhættustýring innan Gildis á þeim viðmiðum sem fram koma í fjárfestingarstefnu og/eða áhættustefnu. Viðmið varðandi árangur og áhættu sjóðsins, eignaflokka og undirsöfn eru skilgreind í fjárfestingarstefnu og/eða áhættustefnu Gildis. Í þeim tilfellum þar sem frekari útskýringa eða skilgreininga er þörf koma þær fram í áhættustýringarstefnu eða öðrum settum stefnum, verkferlum og viðmiðum sjóðsins.
Áhættu í starfsemi Gildis-lífeyrissjóðs má skipta í fjárhagslega áhættu og rekstraráhættu.
Fjárhagsleg áhætta er tengd fjárfestingarstarfsemi sjóðsins, þ.e. þróun eigna og skuldbindinga sjóðsins auk sjóðstreymis. Til fjárhagslegrar áhættu teljast markaðsáhætta, mótaðilaáhætta, lausafjáráhætta og skuldbindingaáhætta (lífeyristryggingaráhætta).
Rekstraráhætta sjóðsins er áhætta tengd innri starfsemi sjóðsins, sem getur haft með að gera rekstrarþætti eins og upplýsingakerfi, verkferla eða starfsmenn sjóðsins. Pólitísk áhætta er hluti af rekstraráhættu en undir rekstráhættu falla einnig aðrir áhættuþættir sem tengdir eru ytri atburðum í rekstrarumhverfi lífeyrissjóðs.
Sjálfbærniáhætta tekur til áhættu vegna umhverfis- og félagslegra málefna auk stjórnarhátta (UFS). Sjálfbærniáhætta er tengd ýmsum áhættuþáttum innan fjárhagslegrar áhættu og rekstraráhættu, þ.e. tengt samskiptum, hlutverki og ábyrgð stjórnar, stjórnenda og starfsmanna, jafnt innbyrðis sem og gagnvart öðrum hagsmunaaðilum sjóðsins. Gildi hefur sett sér hlutahafastefnu, stefnu um ábyrgar fjárfestingar auk samskipta- og siðareglna til að ramma inn samskipti við helstu hagaðila sjóðsins, ásamt fleiri stefnum sem snúa að sjálfbærniáhættu.
Breytingar á áhættuþáttum geta haft áhrif á eignir og skuldbindingar og þar með tryggingafræðilega stöðu samtryggingardeildar og líkur á réttindaskerðingu. Þannig geta breytingar á áhættuþáttum haft áhrif á getu sjóðsins til að ná aðalmarkmiði sínu (taka við iðgjöldum, varðveita og ávaxta eignir með viðeigandi hætti og greiða út lífeyri) og þar með áhættuþol og áhættuvilja. Fjallað er um helstu áhættuþætti innan sjóðsins hér að neðan. Eðli, umfang, framkvæmd áhættustýringar, áhættumælikvarðar og eftirlitsaðgerðir hvers áhættuþáttar ásamt viðhorfi sjóðsins til áhættuþátta er lýst nánar í áhættustýringarstefnu.
Markaðsáhætta er skilgreind sem hættan á fjárhagslegu tapi á liðum innan og utan efnahagsreiknings vegna breytinga á markaðsvirði eigna eða skuldbindinga, þ.m.t. vegna breytinga á gengi gjaldmiðla (gjaldmiðlaáhætta), vöxtum (vaxta-, endurfjárfestingar- og uppgreiðsluáhætta), verðbólgu (verðbólguáhætta), verði hluta- og skuldabréfa og hlutdeildarskírteina í sjóðum (sveiflur í ávöxtun), auk ósamræmisáhættu og áhættu vegna eigna og skuldbindinga utan efnahags. Áhættustig markaðsáhættu er metið með ýmsum áhættumælikvörðum s.s. VaR, staðalfráviki, verðbólgufylgni og meðallíftíma.
Mótaðilaáhætta er flokkuð í útlánaáhættu, samþjöppunaráhættu, landsáhættu, uppgjörsáhættu og vörsluáhættu. Áhættustig mótaðilaáhættu er m.a. metið með lánshæfismati skuldabréfa, væntu tapi, vanskilagreiningu og samþjöppun mótaðila.
Lausafjáráhættu má skipta í tvennt, seljanleikaáhættu og sjóðstreymisáhættu. Áhættustig lausafjáráhættu er m.a. metið með greiningu á framtíðargreiðsluflæði og seljanleika eigna.
Lífeyristryggingaráhætta er áhætta innan samtryggingardeildar á að skerða þurfi réttindi sjóðfélaga vegna þess að eignir mæti ekki skuldbindingum til lengri tíma m.a. vegna breytinga á iðgjöldum, tryggingafræðilegri uppgjörskröfu (skerðingaráhætta), lýðfræðilegum þáttum svo sem lífslíkum og fjölda öryrkja og örorkulíkum hjá sjóðnum auk umhverfis- og réttindaflutningsáhættu. Áhættustig lífeyristryggingaráhættu er m.a. metið með tryggingafræðilegri stöðu, lífeyrisbyrði og meðalaldri sjóðfélaga.
Rekstraráhætta er áhætta vegna taps sem stafar af ófullnægjandi eða gölluðum innri verkferlum, mistökum og aðgerðum eða aðgerðaleysi starfsmanna, sviksemi, ófullnægjandi upplýsingakerfum eða vegna ytri atburða í rekstrarumhverfi lífeyrissjóða. Rekstraráhætta nær til starfsmannaáhættu, áhættu vegna svika, áhættu vegna upplýsingatækni, áhættu vegna aðstöðu eða ófullnægjandi öryggisráðstafana, lagalegrar áhættu og upplýsingaáhættu. Aðrir helstu áhættuþættir rekstraráhættu eru útvistunaráhætta, orðsporsáhætta og pólitísk áhætta (lög og reglur), allt áhættuþættir sem eru undirliggjandi í allri starfsemi sjóðsins. Áhættustig rekstraráhættu er metið út frá áhrifum og líkum hvers áhættuþáttar.
Áhætta tengd sjálfbærni vísar til ýmissa áhættuþátta sem varða möguleika fyrirtækja og stofnanna til að viðhalda arðbærri starfsemi og getu þeirra til að halda áfram rekstri á sjálfbæran hátt til lengri tíma. Sjálfbærniáhætta getur m.a. verið vegna beinna eða óbeinna áhrifa umhverfisþátta, félagslegra þátta eða stjórnarhátta (UFS). Ef áhættan raungerist getur það mögulega haft verulega neikvæð áhrif á virði eigna lífeyrissjóðsins. Megináhætta sjóðsins tengd umhverfismálum (m.a. loftslagsbreytingum), félagslegum málefnum (þ.m.t. mannréttindum) og stjórnarháttum er að fjárfest sé í fyrirtækjum sem ekki sinna lögboðinni og/eða siðferðislegri skyldu sinni sem skapað getur tjón á sama tíma og það getur einnig valdið orðsporsáhættu fyrir sjóðinn. Áhættustig sjálfbærniáhættu er metið út frá áhrifum og líkum hvers áhættuþáttar.
Áhættuvilji er skilgreindur sem sú áhætta sem stjórn sjóðsins er reiðubúin að taka.
Áhættuvilji Gildis fyrir samtryggingardeild og séreignarleiðir er varðar fjárhagsáhættu er skilgreindur í fjárfestingarstefnu sjóðsins, flokkaður eftir hefðbundnum eignaflokkum, sem bil milli vikmarka í fjárfestingarstefnu fyrir hvern eignaflokk. Markar það vilja sjóðsins til eignadreifingar og samsetningar markaðs- og mótaðilaáhættu niður á einstaka eignaflokka hverju sinni, sem og innan hverrar tegundar innlendra skuldabréfa. Vikmörkin eru sett til viðbótar við fjárfestingarstefnu og vikmörk eignasafns eftir tegundaflokkum A-F (sbr. fylgiskjal fyrir fjárfestingarleiðir sjóðsins í viðauka í fjárfestingarstefnu).
Markmið fjárfestingarstefnu er að ávaxta fé sjóðfélaga/rétthafa með hliðsjón af hagfelldustu kjörum sem í boði eru á hverjum tíma að teknu tilliti til áhættu.
Við mótun fjárfestingarstefnu eru skoðaðir þættir eins og lífeyrisbyrði, tryggingafræðileg staða, aldursdreifing sjóðfélaga og rétthafa, framtíðargreiðsluflæði, núverandi eignasamsetning, aðstæður á mörkuðum, áhættumælikvarðar og áhættuþol sjóðsins. Allt eru þetta þættir sem hafa áhrif á mótun fjárfestingarstefnu og þar með áhættuvilja sjóðsins sem getur verið aukinn eða minnkaður byggt á mati á fyrrnefndum þáttum sem mynda áhættusnið sjóðsins.
Áhættuvilji sjóðsins hvað varðar markaðs- og mótaðilaáhættu er einnig skilgreindur nánar með öðrum takmörkunum og viðmiðum í fjárfestingarstefnu. Sjá nánar kafla 4.9 fyrir samtryggingardeild og kafla 5.5 fyrir séreignarleiðir í fjárfestingarstefnu sem fjalla um aðrar takmarkanir og viðmið fyrir fjárfestingarleiðir sjóðsins.
Áhættuvilji sjóðsins er varðar lausafjáráhættu er skilgreindur með viðeigandi viðmiði um hlutfall auðseljanlegra eigna, í samtryggingardeild og séreignarleiðum. Nánari útlistun um viðmið lausafjáráhættu er að finna í viðauka 1 við setta áhættustýringarstefnu.
Áhættuvilji sjóðsins er varðar rekstraráhættu er skilgreindur þannig að koma eigi í veg fyrir þá áhættu sem ógnar getu sjóðsins til að ná aðalmarkmiði sínu (taka við iðgjöldum, varðveita og ávaxta eignir til að hámarka lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga og greiða út lífeyri).
Önnur viðmið til áhættumildunar má sjá í fjárfestingarstefnu og áhættustýringarstefnu sjóðsins. Í áhættustýringarstefnu má einnig finna viðhorf sjóðsins til einstakra áhættuþátta.
Áhættuþol samtryggingardeildar og séreignarleiða sjóðsins er varðar fjárhagsáhættu markast af settum vikmörkum í fjárfestingarstefnu, flokkuðum eftir hefðbundnum eignaflokkum, þ.e. hámarks- og lágmarkshlutföll einstakra eignaflokka ásamt settum vikmörkum gengisbundinna eigna. Við hreyfingu út fyrir sett vikmörk þarf sjóðurinn að grípa til aðgerða, m.a. með viðeigandi breytingum á eignasafni. Nánari útlistun á mögulegum aðgerðum er að finna í áhættustýringarstefnu og verkferlum sjóðsins.
Því til viðbótar tekur langtímaáhættuþol samtryggingardeildar mið af tryggingafræðilegri stöðu deildarinnar hverju sinni. Samkvæmt lögum ber sjóðnum að grípa til sérstakra aðgerða leiði tryggingafræðileg athugun í ljós meiri en 10% mun á milli eignaliða og skuldbindinga eða ef munur hefur haldist meiri en 5% samfellt í fimm ár, samanber 2. mgr. 39. gr laga nr. 129/1997. Sérstakar aðgerðir geta falið í sér breytingar á réttindum sjóðfélaga. Við mat á því hvaða aðgerðir séu viðeigandi er horft til þess að leita langtímalausna og eru hagsmunir sjóðfélaga hafðir að leiðarljósi. Fylgjast skal með þróun tryggingafræðilegrar stöðu og beita fyrirbyggjandi aðgerðum ef þess er kostur. Nær þetta bæði til atvika er lúta að eignum og skuldbindingum, þ.e. allra atvika er geta orðið þess valdandi að lífeyrissjóðurinn geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.
Komið er inn á helstu áhættuþætti síðar í þessari stefnu en fjallað er nánar um áhættustýringu, áhættumælikvarða og eftirlitsaðgerðir einstakra áhættuþátta í áhættustýringarstefnu sjóðsins.
Stjórn Gildis ber ábyrgð á mótun og setningu áhættustefnu og áhættustýringarstefnu fyrir sjóðinn og ber framkvæmdastjóri ábyrgð á að þeim sé framfylgt, bæði er varðar fjárhagslega áhættu og rekstraráhættu.
Með áhættustefnu og áhættustýringarstefnu veitir stjórn Gildis framkvæmdastjóra og öðrum þeim sem hún framselur heimildir til, heimild til eftirlits og stýringar áhættu í starfsemi sjóðsins í samræmi við það sem hér kemur fram og innan þeirra heimilda sem hér eru skilgreindar. Framkvæmdastjóri og aðrir sem sinna áhættueftirliti og áhættustýringu hjá Gildi upplýsa stjórn sjóðsins reglulega um árangur og áhættu starfseminnar og ákvarðanir er varða áhættueftirlit og áhættustýringu.
Í skipulagi Gildis er sérstakt starfssvið, áhættueftirlit, sem heyrir beint undir framkvæmdastjóra. Áhættueftirlit sinnir eftirliti bæði er varðar fjárhags- og rekstrarlega áhættu, áhættumælingum á eignasafni sjóðsins, skráningu frávika og eftirfylgni þeirra. Áhættueftirlit skal milliliðalaust geta lagt fram skýrslu til stjórnar um niðurstöður sínar og viðeigandi ráðstafanir. Forstöðumaður áhættueftirlits er skilgreindur sem ábyrgðaraðili áhættustýringar hjá sjóðnum og ber því ábyrgð á framkvæmd eftirlitsverkefna með áhættu með hliðsjón af starfsemi sjóðsins. Eignastýring Gildis hefur það hlutverk að stýra fjárhagslegri áhættu sjóðsins m.a. með ákvörðunum um kaup og sölu verðbréfa, í samráði við framkvæmdastjóra og stjórn sjóðsins eins og við á hverju sinni. Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á að stýra rekstraráhættu sjóðsins í samráði við stjórn hans með ákvörðunum um rekstur. Þannig er aðskilnaði náð milli áhættueftirlits annars vegar og ákvarðana um stýringu á áhættu sjóðsins í fjárfestingum og rekstri hins vegar. Stjórn sjóðsins, framkvæmdastjóri og eignastýring geta óskað eftir áliti áhættueftirlits eða utanaðkomandi aðila þegar það á við.
Allir starfsmenn sjóðsins koma að framkvæmd áhættustýringar eftir því sem við á og skulu vera meðvitaðir um mikilvægi eftirlitskerfis og taka þátt í innleiðingu viðeigandi áhættumenningar innan sjóðsins. Það er meðal annars gert með því að kynna fyrir starfsmönnum áhættustefnu og áhættustýringarstefnu með viðeigandi hætti hverju sinni. Aðilar sem hafa aðkomu að ákvörðunum tengdum fjárfestingaráhættu kynna sér og taka þátt í mótun áhættu- og áhættustýringarstefnu. Til viðbótar er öllum starfsmönnum gerð grein fyrir þeim þáttum stefnanna sem snúa að þeirra starfsviði í starfslýsingum þeirra, verkferlum sjóðsins og árlegu rekstraráhættumati. Einnig skal leitast við að eftirlitskerfi sjóðsins sé sett upp á skýran og rekjanlegan hátt og að verkferlar og starfslýsingar endurspegli áhættustýringu sjóðsins, eftirlitsaðgerðir og eftirlitskerfið í heild sinni.
Deildarstjórar og forstöðumenn sjóðsins bera ábyrgð á því að þær áhættumildandi aðgerðir sem þeim er falið að framkvæma séu framkvæmdar skv. verkferlum.
Skrifstofustjóri Gildis hefur m.a. umsjón og eftirlit með daglegum störfum lána-, lífeyris-, séreignar- og iðgjaldadeildar ásamt gjaldkera og afgreiðslu.
Yfirlögfræðingur sjóðsins sinnir einnig starfi regluvarðar og fylgist því með hagsmunaskráningu starfsmanna og stjórnarmanna. Hann veitir framkvæmdastjóra, forstöðumanni eignastýringar og öðru starfsfólki sjóðsins upplýsingar og lögfræðiráðgjöf um m.a. fjárfestingar, samskipti við eftirlitsaðila og þann lagaramma sem sjóðurinn starfar innan.
Innri endurskoðandi heyrir undir stjórn Gildis og kannar hvort innra eftirlit sjóðsins sé í samræmi við stefnu og reglur sjóðsins. Hann leggur m.a. mat á eftirlitskerfi sjóðsins og hefur eftirlit með framkvæmd áhættustefnu og áhættustýringarstefnu sjóðsins.
Áhættustefna, áhættustýringarstefna og breytingar á þeim eru lagðar fyrir stjórn Gildis til samþykktar að fenginni umsögn endurskoðunarnefndar sjóðsins sem metur skilvirkni og fyrirkomulag áhættustefnunnar og áhættustýringarstefnu.
Ár hvert skal framkvæmt eigið áhættumat á starfsemi sjóðsins þar sem stjórn sjóðsins er virkur þátttakandi með því að móta framkvæmd áhættumatsins m.a. með því að rýna ferli, endurskoða forsendur og niðurstöður matsins. Meta skal einnig hvort áhættustefna og fjárfestingarstefna séu viðeigandi í samræmi við niðurstöðu eigin áhættumats.
Eigið áhættumat nær m.a. til greiningar á helstu áhættuþáttum, lýsingar á aðgerðum og forsendum matsins, niðurstaðna eftirlitsaðgerða með og án áhættumælikvarða og, þegar við á, áhættumildandi aðgerða og þeirra aðgerða sem lífeyrissjóðurinn hyggst grípa til ef áhætta raungerist. Stuðst er við sviðmyndagreiningar, næmnigreiningar og álagspróf í áhættumatinu m.a. til að meta hvernig áhættutaka fellur að skuldbindingum sjóðsins og hver virkni áhættumildandi aðgerða sé, eftir því sem við á.
Til þess að ákvarða mikilvægi áhættuþátta metur sjóðurinn áhrif hvers áhættuþáttar út frá líkindum þess að áhættan raungerist og áhrifum á eignir og skuldbindingar hans. Við matið er m.a. tekið tillit til þeirra áhættumælikvarða sem fylgja hverjum áhættuþætti, þróun þeirra, sviðsmyndagreininga, álagsprófa og annarra eftirlitsaðgerða sem farið hafa fram yfir árið.
Miðað er við að eigið áhættumat liggi fyrir þremur mánuðum eftir að ársreikningur sjóðsins liggur fyrir. Fyrir 30. júní ár hvert er skýrsla um eigið áhættumat send til Fjármálaeftirlitsins. Niðurstöður eigin áhættumats eru kynntar fyrir starfsmönnum sjóðsins og tekið er tillit til þeirra við ákvörðunartöku og annarra aðgerða í daglegri starfsemi sjóðsins þegar við á.
Nánari umfjöllun um eigið áhættumat er að finna í áhættustýringarstefnu og í skýrslu um eigið áhættumat.
Frávik er skilgreint sem tilvik sem hefur marktæk fjárhags- eða rekstrarleg áhrif á sjóðinn, frávik í upplýsingatækni eða frávik frá settum viðmiðum og mörkum í fjárfestingar-, áhættu-, og áhættustýringarstefnu eða frávik frá fylgni við fjárfestingarheimildir. Möguleg frávik skal tafarlaust tilkynna viðeigandi stjórnendum sjóðsins, þ.e. til framkvæmdastjóra og forstöðumanns áhættueftirlits, ásamt forstöðumanni eignastýringar, forstöðumanni upplýsingatækni og/eða skrifstofustjóra eftir því sem við á. Skulu viðkomandi stjórnendur í framhaldinu leggja mat á það hvort um staðfest frávik sé að ræða.
Upplýsa skal stjórn um öll staðfest frávik eins fljótt og auðið er. Ef upp kemur staðfest frávik skal Fjármálaeftirlitinu jafnframt tilkynnt um það beri að gera það samkvæmt gildandi reglum og leiðbeinandi tilmælum á hverjum tíma.
Halda skal frávikaskráningu og reyna skal eftir fremsta megni og svo fljótt sem auðið er að bregðast við frávikum og eftir atvikum að lágmarka mögulegan skaða sem af þeim getur hlotist.
Reykjavík 18. apríl 2024