Almennt um lánaleiðir

Jafnar greiðslur – Jafnar afborganir

Á lánum með jöfnum greiðslum er mánaðarleg greiðsla lána alltaf sú sama. Greiðslubyrði er lægri í samanburði við lán með jöfnum afborgunum. Höfuðstóll greiðist hægar niður í upphafi en eignamyndun eykst með hverri afborgun.

Á lánum með jöfnum afborgunum er afborgun af höfuðstól jafnhá allan lánstímann. Höfuðstóll greiðist hraðar niður í samanburði við lán með jöfnum greiðslum en á móti er greiðslubyrði hærri til að byrja með en lækkar með hverri afborgun. Greiðslubyrði lækkar af því að vaxtagreiðslur lækka með lækkandi höfuðstól.

Hafa verður í huga að ef lán er verðtryggt þá breytast greiðslur í takt við verðbólgu.

Verðtryggt lán

Verðtryggð lán hafa almennt lægri greiðslubyrði en óverðtryggð lán. Verðtryggð lán eru tengd við vísitölu neysluverðs og hækka því í takti við verðbólgu. Verðbólga er reiknuð mánaðarlega en verðbætur af lánum reiknast daglega.

Bæði höfuðstóll og greiðslur af verðtryggðum lánum hækka í takt við vísitölu neysluverðs.

Óverðtryggt lán

Óverðtryggð lán fela í sér hærri greiðslubyrði í samanburði við verðtryggð lán, höfuðstóll er ótengdur vísitölu neysluverðs og getur því ekki hækkað.

Óverðtryggð lán fást einungis með breytilegum vöxtum.

Fastir vextir – Breytilegir vextir.

Verðtryggð lán geta verið með föstum eða breytilegum vöxtum. Fastir vextir haldast óbreyttir út allan lánstímann og fela í sér fyrirsjáanlegri afborganir og jafnari greiðslubyrði í samanburði við breytilega vexti.

Óverðtryggð lán fást aðeins með breytilegum vöxtum. Á löngum lánstíma má telja víst að vextir hækki eða lækki og þar með breytist greiðslubyrðin einnig.

Stjórn Gildis tekur ákvörðun um breytingar á vaxtakjörum. Vaxtaákvarðanir taka tillit til vaxtakjara á markaði á sambærilegum lánum, áhættumats sjóðsins, stýrivaxta Seðlabanka Íslands, innlánsvaxta og væntrar verðbólgu


Upplýsingaskjal Neytendastofu

Neytendastofa birti grein um þróun höfuðstóls fasteignalána á heimasíðu sinni sumarið 2018 og uppfærði hana vorið 2022. Þar er farið yfir hvaða lánamöguleikar eru í boði á íslenskum lánamarkaði og hvað lán henta hverjum og einum. Lántakendur eru hvattir til að kynna sér efni og innihald greinarinnar sem hægt er að nálgast hér.