Gildi-lífeyrissjóður var stofnaður 1. júlí 2005 við sameiningu Lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna. Um starfsemi Gildis-lífeyrissjóðs fer samkvæmt lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og samþykktum sjóðsins.
Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997 skal iðgjald til öflunar lífeyrisréttinda ákveðið í sérlögum, kjarasamningi, ráðningarsamningi eða með öðrum sambærilegum hætti. Lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs skal vera a.m.k. 12% af iðgjaldsstofni. Í 2. mgr. 2. gr. sömu laga kemur fram að um aðild að lífeyrissjóði, greiðslu lífeyrisiðgjalds og skiptingu iðgjaldsins milli launamanns og launagreiðanda fer eftir þeim kjarasamningi sem ákvarðar lágmarkskjör í hlutaðeigandi starfsgrein, eða sérlögum ef við á. Taki kjarasamningur ekki til viðkomandi starfssviðs eða séu ráðningarbundin starfskjör ekki byggð á kjarasamningi velur viðkomandi sér lífeyrissjóð eftir því sem reglur einstakra sjóða leyfa. Aðild að lífeyrissjóði skal tiltaka í skriflegum ráðningarsamningi.
Öllum atvinnurekendum sem hafa með höndum starfsemi í þeirri starfsgrein sem stéttarfélögin hér að framan hafa gert kjarasamning um er skylt, með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 129/1997, að greiða lífeyrisiðgjöld til samtryggingadeildar Gildis-lífeyrissjóðs af starfsmönnum sínum, í þeim hlutföllum sem viðkomandi kjarasamningur greinir.
Aðildin að Gildi-lífeyrissjóði er þannig skyldubundin og óheimilt að greiða í samtryggingarsjóði annarra lífeyrissjóða.
Kjarasamningar þeirra stéttarfélaga sem aðild eiga að Gildi-lífeyrissjóði kveða á um heimild starfsmanns til þess að hefja sparnað í séreign gegn því að atvinnurekandi greiði tiltekið mótframlag. Gildi-lífeyrissjóður rekur sérstaka séreignardeild samkvæmt ákvæðum laga nr. 129/1997 sem tekur við slíkum iðgjöldum til viðbótartryggingaverndar. Af ákvæðum þessara laga leiðir að starfsmanni er frjálst, ólíkt því sem gildir um samtryggingardeildina, að ráðstafa séreignarsparnaði til hvaða aðila sem er sem hlotið hefur leyfi til þess að stunda slíka starfsemi. Auk lífeyrissjóða hefur t.d. viðskiptabönkum verið veitt slíkt leyfi.