9. október 2018

Yfirlýsing vegna kaupa HB Granda á Ögurvík

Framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur hf. hefur sent bréf til HB Granda hf., sem birt hefur verið á vef Kauphallar Íslands, þess efnis að það sé vilji félagsins að ekki verði farið í viðskipti með Ögurvík ehf. að þessu sinni sökum efasemda eins af stærri hluthöfum HB Granda hf. Tilkynningin kemur í framhaldi af tillögu Gildis-lífeyrissjóðs til hluthafafundar HB Granda hf. þar sem lagt er til að óháður aðili verði fenginn til þess að leggja mat á viðskiptin, en tillagan er aðgengileg hér.

Í tillögu Gildis-lífeyrissjóðs felst ekki afstaða til umræddra viðskipta. Vegna tengsla milli aðila er hins vegar mikilvægt að ákvörðunartakan sé hafin yfir allan vafa. Í tillögunni felst að frekari upplýsingar þurfi að liggja fyrir áður en ákvörðun er tekin um viðskiptin, m.a. varðandi mat á því hversu vel rekstur Ögurvíkur ehf. fellur að rekstri HB Granda hf., eins og nánar kemur fram í tillögu sjóðsins. Hluthafafundi hefur verið fært endanlegt ákvörðunarvald og telur Gildi í ljósi umfangs viðskipta og tengsla milli aðila að vanda þurfi alla málsmeðferð.

Fyrir hluthöfum liggur nú að taka efnislega afstöðu til málsins á hluthafafundi HB Granda hf. þann 16. október næstkomandi, þar á meðal til tillögu Gildis um að lagt verði nánara mat á hvort viðskiptin séu hagfelld fyrir félagið.