30. september 2020

Viljayfirlýsing um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar

Lífeyrissjóðir landsins, þar á meðal Gildi, eru meðal þeirra sem standa að sameiginlegri viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar sem skrifað var undir síðasta föstudag. Aðrir sem koma að yfirlýsingunni eru ríkisstjórn Íslands, fjármálastofnanir, vátryggingafélög og fjárfestingarsjóðir og fara þessir aðilar samtals fyrir hátt í 80% af eignum á íslenskum fjármálamarkaði.

Í yfirlýsingunni segir að fjármagn sé mikilvægt hreyfiafl í mótun atvinnu- og efnahagslífs og samfélagsins í heild. „Rétt nýting þess ræður miklu um samkeppnishæfni þjóða og framtíð komandi kynslóða. Fjárfestar, fjármálafyrirtæki, stofnanir og ríkisstjórnir gegna því mikilvægu hlutverki í því að móta atvinnulíf og samfélög.

Við undirrituð teljum að sjálfbær þróun sé meðal undirstöðuatriða við fjárveitingar, fjárfestingar og útlánastarfsemi. Sjálfbær þróun byggist á jafnvægi umhverfis, samfélags og efnahags og með markvissum aðgerðum er hægt að nýta fjárveitingar, fjárfestingar og útlánastarfsemi til að viðhalda sjálfbærri þróun. Víðtæk áhrif COVID-19 undirstrika enn betur mikilvægi þess að hafa sjálfbærni sem mikilvægt leiðarljós í því uppbyggingarstarfi sem framundan er.“

 

Viljayfirlýsing um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar
Frá vinstri: Hrund Gunnsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Festu, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Landsamtaka lífeyrissjóða, og Katrín Júlíusdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.