Vegna fjölmiðlaumræðu síðustu daga um mótmæli á skrifstofu Gildis og viðbrögð við þeim vill sjóðurinn að gefnu tilefni koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri. Bréf það sem sent var til stjórnar VR um framgöngu formanns félagsins í málinu var ekki ætlað til opinberrar birtingar. Í ljósi þess að efni þess er komið í opinbera umræðu telur sjóðurinn hins vegar rétt að gera það aðgengilegt í heild sinni, sbr. tengil hér að neðan.
Rétt er að taka sérstaklega fram að í bréfinu eða viðtölum við forsvarsmenn Gildis er aldrei sagt eða gefið í skyn að formaður VR hafi sjálfur verið ógnandi eða sýnt af sér ógnandi hegðun. Þar er einfaldlega bent á þá staðreynd að hann sem skipuleggjandi mótmælanna, og sá sem til þeirra boðar, beri ábyrgð á því hvernig mótmælin fari fram. Gagnrýni Gildis snýr ekki að rétti til friðsamlegra mótmæla heldur að því að formaður stéttarfélags starfsmanna standi fyrir mótmælum inni á starfsstöð sjóðsins sem veldur starfsfólki og þar með félagsmönnum hans óöryggi og vanlíðan.
Í bréfinu er meðal annars vísað til nýlegra skrifa formanns VR undir fyrirsögninni „Faraldur ofbeldis og áreitni“. Í greininni sem er vísað til hér að neðan segir m.a.: „Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að upplifa öryggi og virðingu í starfi…“ Einnig að enginn ætti að „upplifa það að einhver öskri á þig og geri lítið úr þér“ inni á vinnustað og „Krafa VR er alveg skýr í þessu efni. Tryggja verður öryggi launafólks við vinnu sína“. Það eru væntingar Gildis að sjónarmið þessi verði virt og að mótmæli af þessu tagi eigi sér ekki stað inni á starfsstöð sjóðsins.
Bréf Gildis-lífeyrissjóðs til stjórnar VR, dags. 4. desember 2023.