Stjórn Gildis-lífeyrissjóðs hefur til skoðunar með hvaða hætti sjóðurinn getur komið til móts við lántakendur sem tekið hafa lán hjá sjóðnum með veði í húseignum í Grindavík. Sjóðurinn telur þó mikilvægast á þessu stigi að veita þeim einstaklingum fjárhagslegt svigrúm tímabundið í því óvissuástandi sem skapast hefur. Stjórn sjóðsins hefur því samþykkt að bjóða lántakendum í Grindavík að fresta greiðslum af lánum sínum í 6 mánuði.
Í því felst að afborgunum af höfuðstól ásamt vöxtum og verðbótum verður frestað og koma því ekki til greiðslu á tímabilinu. Þótt um sé að ræða hefðbundið frestunarúrræði fyrir lántakendur liggur fyrir að stjórn sjóðsins er með til skoðunar mögulegar frekari aðgerðir til þess að koma til móts við lántakendur í Grindavík.
Mikil vinna hefur farið fram innan sjóðsins við að kortleggja stöðuna vegna þeirra óvæntu atburða og miklu óvissu sem skapast hefur vegna yfirstandandi jarðhræringa í Grindavík. Þrátt fyrir það liggur ekki enn með öllu fyrir hvaða heimildir sjóðurinn hefur til að koma til móts við umrædda lántakendur enda staðan um margt óljós og sviðsmyndir margar. Sjóðurinn mun á næstu vikum fylgjast með þróun mála á meðan könnuð verður lagaleg staða sjóðsins gagnvart mögulegum frekari úrræðum til aðstoðar lántökum í Grindvík. Ekki er hægt að svara á þessari stundu hverju sú skoðun mun skila. Þar þarf að hafa í huga að um lífeyrissjóði gilda sérstök lög og um starfsemi þeirra gildir umfangsmikið regluverk. Í störfum sínum þurfa stjórnir og starfsmenn því ávallt að huga að sjónarmiðum um umboðsskyldu og gæta að hagsmunum allra sjóðfélaga.
Lántakendur verða upplýstir um leið og frekari ákvarðanir verða teknar. Haft verður samband við lántakendur í dag og næstu daga til að fara yfir stöðuna.