10. ágúst 2018

Tuttugu og fimm ára meðalraunávöxtun Gildis nemur 5,3%

Meðalraunávöxtun Gildis-lífeyrissjóðs síðustu tuttugu og fimm árin, þ.e. 1993 til 2017, nemur 5,3% samkvæmt samantekt starfsmanna sjóðsins. Raunávöxtun Gildis síðustu tuttugu árin (1998 til 2017) nemur hins vegar rétt rúmlega 3,9%. Raunávöxtun sjóðsins er því á báðum tímabilum vel yfir 3,5% viðmiði sem notað er við útreikninga lífeyrisréttinda sjóðfélaga.

Við útreikninga á meðalraunávöxtun sjóðsins þurfti að horfa til þess að Gildi-lífeyrissjóður varð til árið 2005 við sameiningu Lífeyrissjóðs sjómanna og lífeyrissjóðsins Framsýnar og Lífeyrissjóðurinn Framsýn varð til 1995 við sameiningu sex lífeyrissjóða. Reikna þurfti ávöxtun eldri sjóða fram til ársins 2004 og vega saman miðað við stærð þeirra. Eftir það þurfti einungis að horfa til ávöxtunar Gildis-lífeyrissjóðs.

Undanfarnar vikur hefur við nokkur umræða um langtímaávöxtun lífeyrissjóða þar sem meðal annars hefur verið bent á að erfitt getur reynst að nálgast upplýsingar um ávöxtun lífeyrissjóða aftur í tímann. Samantekt starfsmanna Gildis er ætlað að bæta úr þessu. Til að auka aðgang sjóðfélaga og annarra enn frekar að upplýsingum um ávöxtun og starfsemi sjóðsins hefur Gildi nú birt alla ársreikninga Framsýnar og Lífeyrissjóðs sjómanna sem til eru á rafrænu formi. Fyrir hafði Gildi birt hér á heimasíðunni alla ársreikninga sjóðsins frá stofnun hans.

[caption id="attachment_3706" align="alignnone" width="1024"] Samkvæmt úttekt Stöðvar 2 er meðalraunávöxtun Gildis síðustu tuttugu og fimm árin nokkuð hærri en hjá öðrum lífeyrissjóðum (mynd: Skjáskot úr kvöldfréttum Stöðvar 2 þann 27. júlí síðastliðinn)[/caption]