Um næstu mánaðamót hækkar iðgjald atvinnurekenda í lífeyrissjóð fólks á almennum vinnumarkaði um 1,5% í samræmi við kjarasamning ASÍ og SA frá því í janúar 2016. Samhliða gefst sjóðfélögum tækifæri til að ráðstafa að öllu leyti eða hluta því iðgjaldi sem er umfram 12% í tilgreinda séreign sem svo er nefnd. Það er önnur tegund séreignarsparnaðar en áður hefur boðist og eykur sveigjanleika við starfslok.
- Hægt verður að byrja að taka út tilgreindan séreignarsparnað fimm árum fyrir hefðbundinn lífeyristökualdur en ekki við sextugt eins og gildir um annan séreignarsparnað.
- Tilgreindan séreignarsparnað verður ekki unnt að nota til að safna skattfrjálst til húsnæðiskaupa eða til að greiða skattfrjálst niður húsnæðislán.
- Mikilvægt er að sjóðfélagar geri sér grein fyrir að réttindi í samtryggingardeild geta falið í sér verðmæt tryggingaréttindi.
- Með ráðstöfun iðgjalds í tilgreinda séreign ávinnst ekki, hvað þau iðgjöld snertir, réttur til elli- eða örorkulífeyris, þ.m.t. hvorki framreiknings né makalífeyris.
- Sjóðfélagar þurfa að ganga frá upplýstu samþykki hjá sínum lífeyrissjóði fyrir tilgreindri séreign til að hefja söfnun í hana. Að öðrum kosti rennur hækkun lífeyrisiðgjaldsins í samtryggingu viðkomandi.
Upplýst samþykki
Kjósi sjóðfélagi að ráðstafa öllu viðbótariðgjaldinu í tilgreinda séreign nýtur hann sömu örorkuverndar og áður sem miðast við 12% iðgjald. Sá sem lætur viðbótina fara í samtryggingu nýtur aftur á móti örorkuverndar m.v. 15,5% iðgjald frá 1. júlí 2018.
Það gerir enginn ráð fyrir að verða öryrki á besta aldri en því miður hendir það suma. Þá eru lífeyrisréttindi til 65 ára aldurs reiknuð út frá því hve mikið viðkomandi hefði að óbreyttu greitt í lífeyrissjóð starfsævina á enda. Þar munar miklu hvort viðmiðið er 12% eða 15,5%. Þetta geta því verið mikil verðmæti, einkum fyrir ungt fólk og ábyrgðin er sjóðfélaga að ákveða hvernig ráðstafa skulu þessu viðbótar-iðgjaldi.
Til að safna í tilgreinda séreign þarf að veita upplýst samþykki þess efnis hjá lífeyrissjóðnum. Nánari upplýsingar má fá hjá starfsfólki Gildis í Guðrúnartúni 1 eða í síma 515 4700.
Launagreiðendur
Hvað launagreiðendur snertir þá hefur þessi breyting aðeins áhrif á lífeyrissjóðsiðgjaldið frá þeim sem hækkar úr 8,5% í 10%. Að ári, 1. júlí 2018 hækkar það svo um 1,5% til viðbótar og verður 11,5%. Hlutur launþega verður sem fyrr 4% og heildarlífeyrissjóðsiðgjaldið 15,5% þegar ákvæði kjarasamningsins verða að fullu komin fram.
Samþykktarbreytingar á aukaársfundi
Til að unnt sé að framfylgja ákvæði kjarasamnings um tilgreinda séreign þarf að gera breytingar á samþykktum Gildis-lífeyrissjóðs. Tillögur þess efnis verðar teknar til afgreiðslu á aukaársfundi á Grand hótel Reykjavík fimmtudaginn 22. júní kl. 17.
Allir sjóðfélagar eiga rétt til setu á fundinum með málfrelsi og tillögurétti. Sérstakt fulltrúaráð skipað fulltrúum stéttarfélaga og samtaka atvinnurekenda sem að sjóðnum standa fer með atkvæði á fundinum.
Tillögur til breytinga á samþykktum má sjá
hér og liggja þær einnig frammi á skrifstofu sjóðsins.