24. janúar 2025

Skýrsla Gildis um framkvæmd hluthafastefnu 2024 með áherslum fyrir árið 2025

Gildi hefur birt skýrslu um framkvæmd hluthafastefnu 2024 þar sem farið er yfir hvernig sjóðurinn hefur reynt að hafa jákvæð áhrif á áherslur og stjórnarhætti þeirra félaga sem hann fjárfestir í. Þar er einnig rakið hvernig sjóðurinn hyggst beita sér á árinu 2025.

Verkefni síðasta árs

Ábendingar varðandi starfskjarastefnur voru áberandi við framkvæmd hluthafastefnu Gildis á árinu 2024. Þar taldi sjóðurinn þörf á áframhaldandi aðhaldi í tengslum við skýrleika og viðeigandi mælikvörðum á árangurstengdum greiðslum. Að auki telur sjóðurinn að of fá félög útbúi skýrslu um framkvæmd starfskjarastefnu.

Sjóðurinn beitti sér einnig varðandi tilnefningarnefndir en þar telur sjóðurinn m.a. heppilegt að allir nefndarmenn í tilnefningarnefndum séu kosnir á hluthafafundum og að stjórnarmenn skuli ekki eiga sæti í nefndunum nema það sé rökstutt sérstaklega. Áfram þurfi að kalla eftir að tilnefningarnefndir rökstyðji með fullnægjandi hætti ástæður þess að tiltekin stjórn sé valin og láti ekki nægja að lýsa almennt hæfnisþáttum og endanlegri niðurstöðu.

Áherslur ársins 2025

Gildi mun á árinu 2025 halda áfram vinnu við að bæta stjórnarhætti félaga og leggja þar áherslu á þrjá meginþætti, en þeir eru starfskjarastefnur, tilnefningarnefndir og stefnur í mikilvægum umhverfis- og félagslegum þáttum.

Varðandi starfskjarastefnur eigi þær að mati Gildis að taka mið af langtímahagsmunum félaga. Rökstyðja þurfi þörf fyrir hvatakerfum sem eigi að vera hófleg og innihalda viðeigandi mælikvarða. Stjórnir félaga eru hvattar til þess að skoða fjölbreyttari leiðir en eingöngu kauprétti í því samhengi, en að mati sjóðsins eru umfangsmikil kaupréttarkerfi almennt ekki besta leiðin í því samhengi til þess að tvinna saman hagsmuni aðila. Skýrslur um framkvæmd starfskjarastefnu eigi að birta tímanlega og upplýsa beri hluthafa um frávik frá samþykktum stefnum.

Þegar kemur að tilnefningarnefndum telur sjóðurinn að þær eigi að kjósa af hluthöfum og að stjórnarmenn eigi aðeins í undantekningatilfellum að eiga þar sæti. Samskipti nefndanna við stærstu hluthafa megi vera opnari, góður rökstuðningur skuli fylgja vali nefndanna og síðan þurfi áframhaldandi samtal um þróun þeirra.

Að lokum leggur Gildi áherslu á að félög setji sér viðeigandi stefnur í málefnum sem snúa að mikilvægum umhverfis- og félagslegum þáttum í tengslum við þá starfsemi sem félögin stunda.

Skýrsla um framkvæmd hluthafastefnu er aðgengileg í heild sinni hér.