6. desember 2024

Skattfrjáls séreign inn á lán út árið 2025

Alþingi hefur samþykkt að framlengja heimild til skattfrjálsrar nýtingar séreignarsparnaðar inn á höfuðstól fasteignaláns til 31. desember 2025. Heimild til skattfrjálsrar nýtingar á uppsöfnuðum séreignarsparnaði við öflun íbúðarhúsnæðis til eigin nota var einnig framlengd út næsta ár.

Viðmiðunarfjárhæðir heimildanna verða áfram þær sömu. Það þýðir að einstaklingar geta ráðstafað allt að 500 þúsund krónum á ári en hjón og samskattaðir einstaklingar geta samanlagt nýtt allt að 750 þúsund krónur á ári.

Vakin er sérstök athygli á að einstaklingar með virka ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á fasteignaveðlán þurfa ekki að sækja sérstaklega um áframhaldandi nýtingu úrræðisins á vef Skattsins.

Þeir sem ekki hafa nýtt úrræðið fram að þessu geta sótt um þátttöku á vefnum leidretting.is. Þeir sem vilja hætta nýtingu úrræðisins þurfa að tilkynna það á vefnum leidretting.is.

Skattfrjáls nýting séreignarsparnaðar við kaup á fyrstu íbúð heldur sér óbreytt.

Nánari upplýsingar um úrræðin má finna á vef Skattsins.