19. desember 2017

Samtök um ábyrgar fjárfestingar stofnuð

Gildi-lífeyrissjóður er á meðal stofnenda Samtaka um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi (IcelandSIF). Samtökin voru stofnuð 13. nóvember síðastliðinn af breiðum hópi innlendra fagfjárfesta. Samtökunum er ætlað að stuðla að aukinni þekkingu og umræðu um sjálfbærar og ábyrgar fjárfestingar. Þau eru óháður vettvangur umræðu og taka ekki afstöðu til álitamála er að þessu lúta.

Stofnendur Samtaka um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi eru 23 og eiga það sameiginlegt að fjárfesta fyrir eigin reikning eða í umboði þriðja aðila með starfsemi á Íslandi. Hlutaðeigandi eru ellefu lífeyrissjóðir, fjórir bankar, þrjú tryggingafélög, fjögur rekstrarfélög verðbréfasjóða og eitt eignastýringarfyrirtæki. Formaður stjórnar samtakanna er Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða hjá Landsbankanum, og Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar hjá Gildi, er varaformaður stjórnar.

Enskt heiti samtakanna er IcelandSIF (Iceland Sustainable Investment Forum). Systursamtök samtakanna á norðurlöndunum eru Dansif, Finsif, Norsif og Swesif.Stjórn samtakanna skipa:

Arnór Gunnarsson, forstöðumaður fjárfestinga hjá VÍS
Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar hjá Gildi lífeyrissjóði og varaformaður stjórnar IcelandSIF
Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða hjá Landsbankanum og formaður stjórnar IcelandSIF
Jóhann Guðmundsson, sérfræðingur í eignastýringu hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna
Kristín Jóna Kristjánsdóttir, fjárfestingarstjóri hjá Íslandssjóðum
Kristján Geir Pétursson, lögfræðingur hjá Lífeyrissjóðnum Birtu
Stefna Gildis um ábyrgar fjárfestingar og hluthafastefna

Gildi hefur nýlega sett sér stefnu um ábyrgar fjárfestingar sem er aðgengileg á heimasíðu sjóðsins. Þá hefur sjóðurinn um árabil unnið eftir settri hluthafastefnu sem markar stefnu og stjórnarhætti Gildis sem eiganda í þeim félögum sem hann fjárfestir í. Með henni er ætlunin að auka gegnsæi og ábyrgð sjóðsins sem eiganda og fjárfestis á markaði. Sem lið í því birtir sjóðurinn nú á heimsíðu sinni árleg yfirlit um framkvæmd hluthafastefnu sjóðsins, þar sem fram kemur hvernig atkvæði Gildis er varið á aðalfundum skráðra hlutafélaga og hvaða tillögur bornar eru upp í nafni sjóðsins. Gildi er fyrsti lífeyrissjóðurinn hér á landi sem birtir slíkar upplýsingar með þessum hætti.