9. febrúar 2024

Samkomulag vegna húsnæðislána lífeyrissjóða í Grindavík

Gildi er einn þeirra 12 lífeyrissjóða sem hefur ritað undir samkomulag um stuðning ríkissjóðs vegna húsnæðislána til einstaklinga í Grindavík. Með samkomulaginu tekur ríkissjóður að sér að greiða yfir sex mánaða tímabil áfallna vexti og verðbætur af sjóðfélagalánum einstaklinga vegna fasteigna þeirra í Grindavík.

Stuðningurinn takmarkast við áfallna vexti og verðbætur af sjóðfélagalánum sem nema að hámarki samtals 50 milljónum króna fyrir gjalddaga í desember 2023 til og með maí 2024. Gert er að skilyrði að fasteign hafi verið til eigin nota lántaka.

Nauðsynlegt er að lántakendur sendi póst á lan@gildi.is og staðfesti að þeir óski eftir að úrræðið taki til þeirra.

Eftirfarandi eru helstu atriði samkomulagsins tekin saman í stuttu máli:

  • Ríkissjóður greiðir í sex mánuði áfallna samningsvexti og verðbætur af sjóðfélagalánum upp að tilteknu hámarki.
  • Stuðningur ríkissjóðs nær ekki til afborgana af höfuðstóli sjóðfélagalána.
  • Greiðsla ríkissjóðs berst eftir að tímabili samkomulagsins er lokið. Greiðslum inn á lán ætti að vera lokið í ágúst 2024.
  • Lántaki sem greitt hefur áfallna vexti og verðbætur yfir tímabilið hefur heimild til að óska eftir endurgreiðslu á fjárhæð áfallinna vaxta og verðbóta sem hann hefur greitt á tímabilinu.
  • Skilyrði er að lántaki hafi fyrsta nóvember 2023 verið með skráð lögheimili í íbúðarhúsnæðinu. Stuðningur ríkissjóðs tekur þó einnig til íbúðarhúsnæðis sem var til eigin nota lántaka en er það ekki vegna tímabundinna aðstæðna, svo sem vegna veikinda, náms eða atvinnuþarfa.
  • Stuðningur ríkissjóðs er háður því að lántakendur óski eftir því að úrræðið taki til þeirra.