13. nóvember 2024

Opinn sjóðfélagafundur Gildis: Yfirferð yfir rekstur og séreignarsparnað

Á sjóðfélaga- og fulltrúaráðsfundi Gildis, sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík í gær, þann 12. nóvember, var m.a. farið yfir ávöxtun, rekstur og stöðu sjóðsins á árinu sem og þróun á mörkuðum.

Á fundinum kom fram að hrein nafnávöxtun á fyrstu níu mánuðum ársins nam 7,5% og hrein raunávöxtun 2,7%. Hrein eign sjóðsins í lok september nam 1.075,5 milljörðum króna og hefur því aukist um 83,6 ma.kr. það sem af er ári. Áætluð tryggingafræðileg staða sjóðsins stóð í -4,4% í lok september. Lífeyrisgreiðslur sjóðsins til tæplega 30 þúsund sjóðfélaga námu 25,2 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins og hækkuðu um tæp 13% milli ára.

Fjölmörg önnur málefni voru tekin til umfjöllunar, svo sem nýleg umræðuskýrsla Seðlabanka Íslands um lífeyrissjóði, framkvæmd hluthafastefnu sjóðsins það sem af er ári og fyrirhugaðar breytingar stjórnvalda á framlagi til jöfnunar örorku lífeyrissjóða. Fram kom að verði framlagið fellt niður til framtíðar gæti það haft í för með sér allt að 5,7% heildaráhrif til lækkunar á réttindum sjóðfélaga Gildis. Fundarmenn lýstu áhyggjum af stöðunni hvað þetta varðar og hvöttu bæði stjórnendur Gildis og forsvarsmenn þeirra stéttarfélaga sem eiga aðild að sjóðnum til að beita sér gegn fyrirliggjandi tillögum stjórnvalda um afnám jöfnunarframlagsins.

Valkostir í séreignarsparnaði og tilgreindri séreign

Í yfirferð um valkosti í séreignarsparnaði var meðal annars sýnt fram á að kostnaður við ólíkar fjárfestingarleiðir innlendra og erlendra vörsluaðila séreignarsparnaðar er mjög breytilegur. Dæmi eru um að ef hætt er að greiða í séreignarsparnað ári eftir að stofnað er til hans (eða inneign flutt eða leyst út) getur kostnaður sjóðfélaga verið mjög mismunandi. Á fundinum voru sýnd dæmi um að slíkur kostnaður í tilfelli Framtíðarsýnar 1 hjá Gildi nemur 0,58% samanborið við 10,9% kostnað hjá Allianz (Target4Life) og 75,8% hjá VPV (Future Pension Classic). Einnig var farið yfir mismunandi sviðsmyndir varðandi vænta ávöxtun til eins árs og fimm ára.

Dæmin sem sýnd voru á fundinum eru unnin upp úr opinberum lykilupplýsingablöðum Gildis og umræddra vörsluaðila en á þeim geta sjóðfélagar séð á einfaldan og samræmdan hátt hver m.a. kostnaður og áætluð ávöxtun er af einstaka fjárfestingarleiðum. Lykilupplýsingablöð Gildis eru aðgengileg hér.

Á fundinum kom fram að margir sjóðfélagar Gildis hafa skráð sig í tilgreinda séreign undanfarin ár og að meirihluti þeirra hafi valið að flytja fjármuni sína til erlendra vörsluaðila. Áætlaður kostnaður við þær leiðir er í einhverjum tilfellum margfalt hærri en hjá Gildi eins og rakið var á fundinum.

Miklar umræður spunnust um málið þar sem fundarmenn lýstu meðal annars áhyggjum af því að sjóðfélagar væru í einhverjum tilfellum ekki nægilega upplýstir um kosti og galla mismunandi fjárfestingarleiða og valkosta í séreignarsparnaði og tilgreindri séreign. Mikilvægt væri að auka upplýsingagjöf hvað þetta varðar til að stuðla að upplýstari ákvarðanatöku sjóðfélaga í þessum mikilvæga sparnaði.

Stefán Ólafsson, stjórnarformaður Gildis, setti fundinn en frummælendur voru Davíð Rúdólfsson framkvæmdastjóri og Rósa Björgvinsdóttir, forstöðumaður eignastýringar. Fundarstjóri var Aðalbjörn Sigurðsson, sérfræðingur Gildis í samskiptum og markaðsmálum.


Horfa má á upptöku af fundinum hér: