25. júní 2020

Nýr sjóðfélagavefur

Gildi-lífeyrissjóður hefur nú tekið í notkun nýjan sjóðfélagavef sem bætir verulega aðgengi sjóðfélaga að upplýsingum. Á vefnum er á einfaldan og aðgengilegan hátt hægt að nálgast upplýsingar um réttindi í samtryggingardeild Gildis, inneign í séreignardeild, stöðu lána, réttindi í öðrum lífeyrissjóðum (í gegnum lífeyrisgátt), yfirlit um iðgjaldagreiðslur og margt fleira. Til að tryggja öryggi þessara viðkvæmu upplýsinga krefst innskráning á vefinn rafrænna skilríkja eða Íslykils. Sjóðfélagavefurinn var smíðaður af tæknifyrirtækinu Advania undir stjórn starfsfólks Gildis.


Bætt stafræn þjónusta


Með innleiðingu á nýjum vef stígur Gildi stórt skref í átt að bættri stafrænni þjónustu og eru sjóðfélagar hvattir til að nýta sér þær lausnir sem hinn nýi vefur býður uppá. Mikilvægi stafrænnar þjónustu hefur komið vel í ljós síðustu vikurnar þegar skerða þurfti beina þjónustu um allt samfélagið vegna útbreiðslu Covid-19. Gildi mun því halda áfram að þróa rafrænar lausnir og þar með tryggja sem best stafrænt aðgengi að allri þjónustu sem sjóðurinn veitir. Rétt er þó að taka fram að Gildi mun halda áfram að veita persónulega þjónustu og ráðgjöf á skrifstofum sjóðsins fyrir þá sem það kjósa.