Stjórn Gildis-lífeyrissjóðs hefur gengið frá ráðningu á nýjum framkvæmdastjóra sem taka mun við starfinu um næstu áramót. Árni Guðmundsson, núverandi framkvæmdastjóri Gildis, mun láta af störfum í lok árs og mun Davíð Rúdólfsson taka við stöðu framkvæmdastjóra sjóðsins á þeim tímapunkti.
Árni hefur starfað nánast allan sinn starfsferil innan lífeyriskerfisins, eða allt frá því að hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóa Íslands árið 1982. Þá tók hann við stöðu framkvæmdastjóra Lífeyrissjóðs sjómanna og sinnti hann því starfi til ársins 2005. Árið 2005 varð Gildi til við sameiningu Lífeyrissjóðs sjómanna og Lífeyrissjóðsins Framsýnar og hefur hann frá upphafi verið framkvæmdastjóri sjóðsins.
„Ég óskaði eftir því við stjórn sjóðsins á dögunum að fá að láta af störfum eftir að hafa starfað í rúmlega 41 ár hjá sjóðnum. Mér finnst þetta réttur tímapunktur fyrir þessa breytingu, staða Gildis er sterk, starfsemin traust og ég get því gengið sáttur frá borði“ segir Árni.
Davíð Rúdólfsson hefur mikla þekkingu á rekstri og starfsemi Gildis eftir að hafa starfað hjá sjóðnum frá árinu 2008. Þá hefur hann gengt stöðu forstöðumanns eignastýringar sjóðsins frá árinu 2010 og hlutverki staðgengils framkvæmdastjóra sjóðsins frá árinu 2016. Hann hefur 22 ára starfsreynslu á fjármálamarkaði og starfaði áður m.a. hjá Íslandsbanka, Kaupþingi og Gnúpi Fjárfestingafélagi. Davíð er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði, hefur lokið CFA vottun (Chartered Financial Analyst) og prófi í verðbréfaviðskiptum.
„Ég þakka traustið sem mér er sýnt af hálfu stjórnar. Ég þekki vel til sjóðsins og þess öfluga starfsfólks sem hjá honum starfar og hlakka til að taka að mér þetta nýja hlutverk“, segir Davíð.
Stefán Ólafsson, stjórnarformaður Gildis, tilkynnti á ársfundi um fyrirhugað brotthvarf Árna úr stóli framkvæmdastjóra og um ráðningu Davíðs í hans stað. Þar sagði hann m.a.: „Árni Guðmundsson skilar góðu búi og einstaklega skilvirkum rekstri Gildis eftir farsælan feril sem framkvæmdastjóri sjóðsins. Stjórn Gildis vildi tryggja áframhald þeirra góðu starfshátta og var einróma um þá ákvörðun að ráða Davíð Rúdólfsson, staðgengil Árna, í stöðu framkvæmdastjóra frá og með næstu áramótum.“
Davíð Rúdólfsson, Árni Guðmundsson og Stefán Ólafsson.