26. apríl 2024

Niðurstaða ársfundar Gildis 2024

Um áttatíu manns sátu ársfund Gildis-lífeyrissjóðs 2024 sem fram fór Hótel Reykjavík Grand miðvikudaginn 24. apríl klukkan 17:00. Á fundinum flutti Björgvin Jón Bjarnason, stjórnarformaður Gildis, skýrslu stjórnar og í framhaldi fór Davíð Rúdólfsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, yfir ársreikning 2023, tryggingafræðilega úttekt, hluthafastefnu, fjárfestingarstefnu o.fl. Hann fór einnig yfir stöðu mála tengd ÍL-sjóði sem og áhrif jarðhræringa á stöðu sjóðfélaga Gildis og úrræði því tengd. Rósa Björgvinsdóttir, forstöðumaður eignastýringar Gildis, fór yfir þróun á mörkuðum á árinu 2023 og eignasafn sjóðsins.

Heildareignir Gildis í árslok 2023 námu tæplega 992 milljörðum króna en þær voru ríflega 913 milljarðar í byrjun ársins. Þrátt fyrir um margt erfiðar markaðsaðstæður á árinu var hrein nafnávöxtun samtryggingardeildar sjóðsins 6,7% og hrein raunávöxtun neikvæð um 1,2%.

Tryggingafræðileg staða sjóðsins, sem var neikvæð um 3,9% í upphafi ársins, var neikvæð um 4,3% í árslok. Sjóðurinn greiddi tæpa 31 milljarð króna í lífeyri á árinu 2023. Hægt er að kynna sér upplýsingar um rekstur sjóðsins, ávöxtun og eignir í ítarlegri ársskýrslu sem lögð var fram og kynnt á fundinum og er einnig að finna á heimasíðu sjóðsins.

Breytingar á samþykktum

Árni Hrafn Gunnarsson, yfirlögfræðingur Gildis, gerði á fundinum grein fyrir tillögum til breytinga á samþykktum sjóðsins. Boðaðar breytingar voru í framhaldi staðfestar en þær eru þessar:

  • Breytingar voru gerðar á grein 4.5 þar sem opnað er á að fulltrúum í endurskoðunarnefnd verði fjölgað en þeir eru í dag þrír. Einnig var nafni nefndarinnar breytt í „Endurskoðunar- og áhættunefnd“.
  • Nýjum lið var bætt við gr. 5.8 þar sem fjallað er um dagskrá ársfundar, en hann kveður á um kjör utanaðkomandi aðila í endurskoðunar- og áhættunefnd ef stjórn leggur slíkt til.
  • Skv. breytingu á gr. 9.12 skal auka réttindaávinnslu sjóðfélaga um 4% sem og að hækka lífeyrisgreiðslur (aðrar en barnalífeyri) um 2,5% á grundvelli greiðslu sérstaks örorkuframlags úr ríkissjóði.
  • Greinum 11.4 og 18.4 var breytt til að skerpa á verklagi sjóðsins varðandi annars vegar hækkun á réttindum ellilífeyrisþega sem enn eru starfandi á vinnumarkaði og hins vegar þeirra sem fá réttindi sín greidd sem eingreiðslu.

Hægt er að kynna sér rökstuðning fyrir breytingum á samþykktum Gildis hér.

Skipan stjórnar og kosning í launanefnd

Eftirtaldir fulltrúar voru kosnir eða skipaðir í stjórn Gildis á fundinum.

  • Fulltrúar aðildarfélaga launamanna:
    • Guðmundur Helgi Þórarinsson (nýr í stjórn)
    • Gundega Jaunlinina
  • Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins:
    • Bjarnheiður Hallsdóttir
    • Sverrir Sverrisson


Eftir ársfundinn er stjórn sjóðsins þannig skipuð:

  • Stefán Ólafsson, formaður
  • Björgvin Jón Bjarnason, varaformaður
  • Bjarnheiður Hallsdóttir
  • Freyja Önundardóttir
  • Guðmundur Helgi Þórarinsson
  • Gundega Jaunlinina
  • Perla Ösp Ásgeirsdóttir
  • Sverrir Sverrisson

Árni Bjarnason hætti í stjórn á fundinum en hann settist fyrst í stjórn Lífeyrissjóðs sjómanna árið 2002 og í stjórn Gildis-lífeyrissjóðs árið 2007. Hann á að baki samtals 13 ára setu sem aðalmaður í stjórn Gildis og fyrirrennara hans. Því til viðbótar var hann lengi varamaður í stjórn sjóðsins. Árna var á fundinum þökkuð góð störf í þágu sjóðsins og sjóðfélaga síðustu ár.

Stefanía Kolbrún Ásbjörnsdóttir og Jón Kristinn Sverrisson voru tilnefnd af SA í launanefnd sjóðsins og Eyþór Þ. Árnason var kosinn af fulltrúum launamanna. Til viðbótar á stjórnarformaður Gildis (nú Stefán Ólafsson) sæti í nefndinni.

Önnur mál og framkvæmd fundarins

Á fundinum var m.a. farið yfir tillagðar breytingar á starfskjarastefnu sjóðsins sem samþykktar voru á fundinum og fyrirliggjandi tillaga um laun stjórnarmanna var enn fremur samþykkt. Staðfest var að Deloitte ehf. verður áfram endurskoðandi sjóðsins og Helgi Friðjón Arnarson var kosinn utanaðkomandi aðili í endurskoðunarnefnd. Tillögu frá Erni Pálssyni um að sjóðurinn beiti sér fyrir málaferlum gegn fyrrverandi stjórnendum Íslandsbanka var hafnað.

Fundarstjóri var Guðbjörg Helga Hjartardóttir, lögmaður hjá Logos og fundarritari Gunnar Þór Ásgeirsson, lögfræðingur Gildis.

Fundargögn