Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár er lagt til að framlag til jöfnunar á örorkubyrði almennra lífeyrissjóða verði lækkað um 4,7 milljarða króna og að það verði afnumið að fullu árið 2026. Að óbreyttu mun það leiða til skerðingar á lífeyrisréttindum sjóðfélaga nokkurra lífeyrissjóða, þar á meðal Gildis-lífeyrissjóðs.
Ástæðan er sú að tíðni örorku er mismikil eftir starfsgreinum. Örorkubyrði Gildis, sem er m.a. lífeyrissjóður verkafólks og sjómanna, er töluvert meiri en hjá flestum öðrum sjóðum. Hver króna sem fer í að greiða endurhæfingar- og örorkulífeyri minnkar samsvarandi getu til að greiða ellilífeyri. Það þýðir að því hærri sem örorkubyrði lífeyrissjóðs er, því færri krónur eru í sjóðnum til að greiða ellilífeyri. Ellilífeyrisréttindi eru því almennt lægri hjá sjóðum með hátt hlutfall örorku. Af þeirri ástæðu var árið 2005 samið um það í kjarasamningum að ríkið greiddi sérstakt „framlag til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða“ til að minnka þann mun sem mismunandi tíðni örorku skapar milli lífeyrissjóða.
5,7% réttindaskerðing að óbreyttu
Gildi-lífeyrissjóður nýtir framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði annars vegar til hækkunar á réttindaöflun greiðandi sjóðfélaga og hins vegar til hækkunar á lífeyrisgreiðslum sjóðfélaga sem komnir eru á lífeyri. Samanlagt hækkaði framlag ríkisins á síðasta ári réttindi sjóðfélaga Gildis um 5,7%. Miðað við fyrirliggjandi frumvarp um afnám örorkuframlagsins verður hækkun réttinda sjóðfélaga einungis 2,85% á næsta ári og 0% til frambúðar. Það þýðir með öðrum orðum að verði framlag til jöfnunar örorku lagt niður mun það leiða til þess að réttindi sjóðfélaga Gildis skerðast samanlagt að óbreyttu um 5,7%.
Leita þarf lausna
Framlag ríkisins til jöfnunar örorkubyrði er afar mikilvægt, þrátt fyrir að það hafi ekki verið nægilegt til að jafna út þann mikla mun sem er örorkubyrði lífeyrissjóða. Að mati sjóðsins er málefnalegt að endurskoða úthlutunarfyrirkomulag framlagsins til raunverulegrar jöfnunar á örorkubyrði milli sjóða. Að sama skapi er afar mikilvægt að skerða ekki umrætt framlag til jöfnunar örorku til þeirra sjóða sem hafa háa örorkubyrði, a.m.k. ekki fyrr en aðrar lausnir liggja fyrir hvað það varðar, ella mun það leiða til skerðingar á lífeyri sjóðfélaga.
Gildi-lífeyrissjóður hefur sent Alþingi ítarlega umsögn vegna fyrirætlana stjórnvalda um að fella niður framlag til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Umsögnina má finna hér fyrir neðan og eru áhugasamir hvattir til að kynna sér hana.