Í kjölfar hamfaranna í Grindavík hefur á mörgum sviðum samfélagsins þurft að bregðast við þeim aðstæðum sem blasa við íbúum í bænum.
Gildi-lífeyrissjóður brást strax við í kjölfar hamfaranna og kynnti 22. nóvember fyrir lántakendum sjóðsins í Grindavík möguleikann á að fresta greiðslum í allt að sex mánuði. Starfsfólk lánadeildar Gildis hefur verið í sambandi við lántakendur í Grindavík undanfarnar vikur til að fara yfir stöðu mála og kynna þau úrræði sem sjóðurinn býður lántakendum upp á.
Rúmlega tuttugu þeirra lántakenda í Grindavík sem eru með fasteignalán hjá Gildi hafa þegar ákveðið að nýta sér þann kost að fresta greiðslum í allt að sex mánuði. Tæplega tuttugu til viðbótar greiddu af lánum sínum um síðustu mánaðamót og hafa ekki að svo stöddu óskað eftir öðru. Eftir standa tæplega tíu lántakendur sem ekki hafa gengið formlega frá frystingu lána sinna. Rétt er að ítreka að allir lántakendurnir eiga kost á greiðsluskjóli sem þýðir að þeir þurfa ekki að reiða fram greiðslur út maímánuð 2024.
Starfsfólk Gildis hefur frá því hamfarirnar í Grindavík riðu yfir unnið að því að kortleggja hvort til staðar séu lagaheimildir fyrir lífeyrissjóði til að fara í almennar niðurfellingar á vöxtum og verðbótum á umræddum lánum, á sama hátt og m.a. bankar hafa gert. Í því sambandi er nauðsynlegt að hafa í huga að um lífeyrissjóði gilda önnur og oft mun strangari lög en eiga við um aðrar fjármálastofnanir. Unnið hefur verið að kortlagningu á stöðunni innan sjóðsins, en verkefnið er flókið þar sem taka þarf tillit til fjölmargra þátta.
Lögð hefur verið áhersla á að vinna málið eins hratt og mögulegt er og er nú gert ráð fyrir að niðurstaða liggi fyrir síðar í vikunni.