24. október 2017

Rekstrarkostnaður lífeyrissjóðanna er 0,24% af meðaleignum þeirra

Rekstrarkostnaður lífeyrissjóða á Íslandi nemur innan við fjórðungi úr prósenti af meðaleignum þeirra. Árið 2016 kostaði rekstur íslenska lífeyrissjóðakerfisins 6,4 milljarðar króna samkvæmt samantekt Fjármálaeftirlitsins, eða sem svarar til 0,24% af meðaleignum sjóðanna. Samkvæmt opinberum samanburðartölum frá OECD – Efnahags og framfarastofnun Evrópu, kemur Ísland vel út úr alþjóðlegum samanburði hvað þetta snertir. Kostnaður hér er svipaður og gerist í Þýskalandi, Lúxemborg, Noregi, Portúgal og Síle.

Þessu er vert að halda til haga í ljósi rangra fullyrðinga í þjóðmálaumræðunni og auglýsingar frá þingflokki sem virðist byggjast á þeim. Alþjóðleg venja er að telja ekki fjárfestingargjöld verðbréfasjóða til rekstrarkostnaðar, enda eru þau óhjákvæmilegur kostnaður þess að fjárfesta og dragast frá ávöxtun viðkomandi. Fjárfestingargjöld lífeyrissjóða eru vissulega nokkuð há. Það stafar af miklum eignum sjóðanna og eftir því sem þær vaxa sjóðfélögum til ábata, þá hækka þessi gjöld.

Því hefur verið haldið fram fram að rekstrarkostnaður íslenskra lífeyrissjóða nemi um 22 milljörðum króna á ári. Þá eru fjárfestingagjöld með röngu talin til rekstrarkostnaðarins og jafnframt áætlaður kostnaður hjá smærri lífeyrissjóðum landsins.

Aðhald er öllum hollt en gagnrýni verður að byggjast á staðreyndum en ekki upphrópunum. Eins og sjá má í frétt á vef Landssamtaka lífeyrissjóða er þessi fjárhæð sem haldið hefur verið á lofti undanfarið fjarri öllum sanni.

Frétt Landssamtaka lífeyrissjóða