Um næstu mánaðamót hækkar mótframlag atvinnurekenda í lífeyrissjóð á almennum vinnumarkaði um 1,5% og verður þá 10%. Skylduiðgjaldið nemur þá samtals 14% þar sem 10% koma frá atvinnurekanda og 4% frá launamanni. Að ári hækkar svo mótframlag atvinnurekanda í 11,5%.
Viðbótariðgjaldinu má ráðstafa í svokallaða tilgreinda séreign sem er nýr valkostur innan skyldutryggingar og kemur til viðbótar hefðbundnum valkvæðum séreignarsparnaði. Sjóðfélagar geta þá ráðstafað viðbótariðgjaldinu í tilgreindan séreignarsparnað eða nýtt það til að auka tryggingavernd sína til örorkulífeyris og ævilangs ellilífeyris í samtryggingu. Mikilvægt er að hver og einn sjóðfélagi taki upplýsta ákvörðun um ráðstöfun viðbótariðgjaldsins og fái góðar upplýsingar um áhrif þess á tryggingavernd sína.
Með því að ráðstafa viðbótariðgjaldinu í tilgreinda séreign byggir sjóðfélagi upp sjóð sem er séreign viðkomandi og getur meðal annars nýst til að auka sveigjanleika við starfslok og erfist samkvæmt erfðalögum. Á móti kemur að tryggingavernd í samtryggingarhluta lífeyrissjóðs sem tryggir ævilangan ellilífeyri, maka- og barnalífeyri og örorkulífeyri við starfsorkumissi verður minni en ella.
Sjá frétt á vef ASÍ.