24. nóvember 2023

Hækkandi lífeyrisgreiðslur og umfangsmikil þjónusta

Um sjötíu gestir sátu sjóðfélagafund Gildis sem haldinn var á Grand Hótel Reykjavík klukkan 17 í gær þar sem farið var yfir ávöxtun, rekstur og stöðu sjóðsins á fyrstu níu mánuðum ársins. Á fundinum kom fram að hrein nafnávöxtun á tímabilinu nam 1,5% sem þýðir að hrein raunávöxtun var -4,8%. Hrein eign samtryggingardeildar í lok september nam 930 milljörðum króna en var 905 milljarðar um síðustu áramót. Áætluð tryggingafræðileg staða sjóðsins stóð í lok september í -6,4%.

Nánari upplýsingar um stöðu sjóðsins má finna á glærum framsögumanna sem finna má neðst í fréttinni.

Viðamikil þjónusta og hækkandi lífeyrir

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, fór á fundinum yfir rekstur sjóðsins og þá þjónustu sem hann veitir. Þar kom fram að um 270.000 sjóðfélagar eiga réttindi hjá Gildi, 28.000 fengu greiddan lífeyri á fyrstu níu mánuðum ársins, tæplega 1.100 sjóðfélagalán voru veitt og starfsfólk hélt utan um tæplega 939 milljarða króna eignasafn. Starfsfólk lífeyrisdeildar afgreiddi á tímabilinu tæplega 6.000 umsóknir um lífeyri, en inni í þeirri tölu eru yfirferðir á endurmötum vegna örorkulífeyris.

Í yfirferð Árna kom enn fremur fram að á meðan ellilífeyrisþegum fjölgar um 7,7% hækka ellilífeyrisgreiðslur úr rúmlega 11 milljörðum í tæplega 15 milljarða, eða um 31,6% og á sama tíma og þeim sem fá greiddan örorkulífeyri frá Gildi fjölgar um tæplega 1% hækka greiðslurnar um 24%. Ástæður fyrir hækkandi lífeyrisgreiðslum eru annars vegar að greiðslurnar eru verðtryggðar en hins vegar að Gildi jók réttindi sjóðfélaga um áramótin sem hækkaði lífeyrisgreiðslur sjóðsins umtalsvert.

Grindavík

Á fundi gærdagsins nefndu bæði formaður og framkvæmdastjóri stöðuna í Grindavík og möguleg úrræði sjóðsins til að koma til móts við lántakendur í bænum. Nokkrir fundarmenn stigu enn fremur í pontu til að tjá sig um málið. Segja má að skilaboð fundarmanna til stjórnar, sem ítrekuð voru í lok fundar undir liðnum önnur mál, var að fara þurfi vandlega yfir stöðuna og leita leiða til að koma til móts við Grindvíska lántakendur.

ÍL-sjóður

Á fundinum fór Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis, yfir stöðuna á verðbréfamörkuðum á árinu og eignasafn sjóðsins. Davíð rakti einnig málefni ÍL-sjóðs þar sem meðal annars kom fram að í vikunni skilaði lögfræðiþjónustan LOGOS f.h. 20 lífeyrissjóða áliti á frumvarpi fjármála- og efnahagsráðherra inn í samráðsgátt stjórnvalda. Niðurstaða hennar er að ríkið er fjarri því að ná yfirlýstum markmiðum sínum verði frumvarpið að lögum. Það myndi þvert á móti að öllum líkindum leiða til aukinna fjárútgjalda ríkisins, raska jafnvægi á fjármálamarkaði, skapa áratuga óvissu um uppgjör á skuldbindingum ÍL-sjóðs og skaða orðspor ríkisins. Umsagnir annarra aðila um frumvarpsdrögin endurspegla jafnframt verulega ágalla á fyrirhuguðum áformum ríkisins vegna ÍL-sjóðs.

Framsögumenn á sjóðfélaga- og fulltrúaráðsfundi Gildis í gær voru Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis og Björgvin Jón Bjarnason, formaður stjórnar Gildis. Fundarstjóri var Aðalbjörn Sigurðsson, forstöðumaður samskipta hjá Gildi.


Tæplega sjötíu gestir sátu sjóðfélaga- og fulltrúaráðsfund Gildis fimmtudaginn 23. nóvember 2023. Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir af fundinum.

Sjóðfélagafundur nóvember 2023 - (6)

Sjóðfélagafundur nóvember 2023 - (4)

Sjóðfélagafundur nóvember 2023 - (5)

Sjóðfélagafundur nóvember 2023 - (2)