7. mars 2025

Góð ávöxtun Gildis á árinu 2024

  • Hrein eign: 1.126.653 m.kr.
  • Fjárfestingartekjur: 119.873 m.kr.
  • Iðgjöld: 51.073 m.kr.
  • Lífeyrir: 34.536 m.kr.
  • Fjöldi sjóðfélaga: 279 þúsund

Uppgjör Gildis-lífeyrissjóðs vegna ársins 2024 liggur nú fyrir en það sýnir að afkoma ársins var afar hagstæð fyrir sjóðfélaga. Hrein nafnávöxtun samtryggingardeildar var 11,8% og raunávöxtun var 6,7%. Enn fremur var ávöxtun allra fjárfestingaleiða sjóðsins jákvæð eins og taflan hér fyrir neðan sýnir:

Hrein nafn- og raunávöxtun

Hrein nafnávöxtun Hrein raunávöxtun
Samtryggingardeild 11,8% 6,7%
Framtíðarsýn 1 10,9% 5,9%
Framtíðarsýn 2 9,4% 4,5%
Framtíðarsýn 3 6,0% 1,2%

Hrein eign Gildis-lífeyrissjóðs í árslok 2024 nam samtals 1.126.653 milljónum króna og jókst um 134.761 m.kr. á milli ára. Ávöxtun sjóðsins yfir lengra tímabil er einnig hagstæð en tíu ára hrein meðalraunávöxtun samtryggingadeildar Gildis er 4,3% og hrein raunávöxtun síðustu tuttugu ára nemur að meðaltali 3,1%. Þetta er meðal þess sem kemur fram í auglýsingu Gildis um afkomu sjóðsins á árinu 2024 sem birtist í dagblöðum landsins þessi dægrin en auglýsinguna má finna hér fyrir neðan.

Samtryggingardeild

Hrein eign samtryggingardeildar til greiðslu lífeyris nam 1.116.556 m.kr. í árslok 2024 og hækkaði á árinu um 133.372 m.kr. Tryggingafræðileg staða sjóðsins, sem sýnir getu samtryggingadeildar til að standa við skuldbindingar sínar, styrktist verulega á árinu. Hún var -1,2% í árslok 2024 samanborið við -4,3% árinu áður.

Séreignardeild

Hrein eign séreignardeildar nam 8.787 m.kr. í árslok 2024 og tilgreindrar séreignardeildar 1.311 m.kr. Innan séreignadeildar og tilgreindrar séreignardeildar sjóðsins eru þrjár ávöxtunarleiðir, Framtíðarsýn 1, Framtíðarsýn 2 og Framtíðarsýn 3. Ef horft er á ávöxtun fjárfestingaleiða sjóðsins yfir lengra tímabil kemur í ljós að hún er mjög hagstæð:

Meðalnafnávöxtun

Framtíðarsýn 1 Framtíðarsýn 2 Framtíðarsýn3
5 ára ávöxtun 7,9% 6,5% 6,4%
10 ára ávöxtun 7,6% 7,0% 5,3%
20 ára ávöxtun 8,3% 7,4% 7,6%

Hagstætt ár á fjármálamörkuðum

Hreinar fjárfestingartekjur sjóðsins á árinu 2024 voru 119.873 m.kr. samanborið við 63.090 m.kr. árið áður. Árið 2024 var almennt gott á eignamörkuðum þar sem allir eignaflokkar sjóðsins skiluðu jákvæðri raunávöxtun, að undanskildum erlendum skuldabréfum. Í eignasafni sjóðsins skiluðu skráð innlend hlutabréf bestri ávöxtun, en skráð erlend hlutabréf fylgdu þar fast á eftir.

Verðbólga, vaxtakjör og gengisþróun höfðu eins og alltaf mikil áhrif á afkomu sjóðsins. Verðbólga hjaðnaði verulega á árinu og Seðlabanki Íslands hóf vaxtalækkunarferli í árslok eftir fjögurra ára tímabil verðbólgu og hárra vaxta. Í lok árs stóð verðbólga í 4,8% og meginvextir í 8,5%.

Krónan styrktist á árinu um tæplega 4% á mælikvarða gengisvísitölu. Þróun krónunnar var þó nokkuð ólík gagnvart helstu viðskiptamyntum og þannig veiktist hún gagnvart bandaríkjadollar um 1,5%. Áhrif gjaldmiðlahreyfinga á eignir sjóðsins voru vegna þessa lítillega jákvæð þar sem stór hluti erlendra eigna hans er í bandaríkjadollar.

Um sjóðinn

Gildi er fjölmennasti lífeyrissjóður landsins þar sem tæplega 279 þúsund sjóðfélagar áttu réttindi í lok árs 2024. Rúmlega 8.300 launagreiðendur greiddu iðgjöld til Gildis fyrir rúmlega 59.000 sjóðfélaga á síðasta ári. Lífeyrisgreiðslur sjóðsins á árinu 2024 námu alls 34.536 m.kr., en voru 30.765 m.kr. árið 2023. Rekstrarkostnaður sjóðsins nam 1.648 m.kr. á árinu 2024 en var 1.410 m.kr. árið áður.

Ársfundur 10. apríl

Ársfundur Gildis verður haldinn klukkan 17:00, fimmtudaginn 10. apríl næstkomandi á Hótel Reykjavík Natura, en þar verður m.a. farið yfir afkomu sjóðsins á árinu 2024. Fundinum verður streymt á heimasíðu sjóðsins. Dagskrá fundarins og nánara fyrirkomulag verður auglýst síðar.