20. maí 2021

Gildi til fyrirmyndar

Gildi-lífeyrissjóður hefur hlotið nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki 2021 og tóku forsvarsmenn sjóðsins við viðurkenningu fyrir það í Hörpu síðasta mánudag. Það er stéttarfélagið VR sem stendur að baki verkefninu en þetta er í fyrsta skipti sem Gildi hlýtur nafnbótina. Hún er veitt í þremur flokkun og hlaut Gildi viðurkenninguna í hópi meðalstórra fyrirtækja. Sjóðurinn hefur síðustu misseri lagt sérstaka áherslu á starfsmannamál og er sérstaklega gleðilegt að sú vinna hafi skilað sér á þennan hátt.

Til að hljóta nafnbótina Fyrirmyndarfyrirtæki 2021 þurftu fyrirtæki að skora hátt í könnun sem VR framkvæmdi meðal þúsunda starfsmanna á almennum vinnumarkaði, m.a. meðal starfsmanna Gildis, á dögunum. Markmið könnunarinnar er að afla upplýsinga um viðhorf starfsmanna til þess vinnustaðar þar sem þeir starfa, en könnunin er einnig vettvangur starfsmannanna til að segja stjórnendum hvað er vel gert og hvað betur má fara. Nánar tiltekið er í könnuninni spurt um viðhorf til níu lykilþátta í innra starfsumhverfi fyrirtækja, en þeir eru stjórnun, starfsandi, launakjör, vinnuaðstaða, sveigjanleiki, sjálfstæði í starfi, ímynd fyrirtækisins, ánægja/stolt og jafnrétti. Þau fimmtán fyrirtæki sem fá flest stig frá starfsfólki sínu hljóta útnefninguna Fyrirmyndarfyrirtæki. Þess má geta að Gildi-lífeyrissjóður var í sjöunda sæti í sínum flokki.



Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, tekur við viðurkenningu fyrir Fyrirmyndarfyrirtæki ársins 2021 frá Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR.