Gildi-lífeyrissjóður hlýtur verðlaun fagtímaritsins World Finance
9. júlí 2016
Gildi-lífeyrissjóður hlýtur verðlaun fagtímaritsins World Finance
Gildi-lífeyrissjóður hefur verið valinn besti lífeyrissjóðurinn á Íslandi árið 2016 eða „Best Pension Provider – Iceland – 2016“ að mati tímaritsins World Finance í árlegum „Pension Fund Awards” blaðsins. Umfjöllun um verðlaunin má finna í tölublaði World Finance sem kom út í júlí/ágúst s.l.
Í umsögn um verðlaunin kemur fram að þeir sjóðir sem hljóta verðlaunin hafi með vinnubrögðum sínum skarað fram úr í því að auka traust og trúverðugleika á fjármálamarkaði. Gildi var einn þriggja lífeyrissjóða sem World Finance tilnefndi til verðlaunanna hér á landi í ár. Samtals fengu 39 lífeyrissjóðir frá jafnmörgum löndum verðlaun sem besti lífeyrissjóðurinn, hver í sínu landi.
World Finance er alþjóðlegt fagtímarit um fjármál og má finna link á heimasíðu blaðsins hér.
Gildi-lífeyrissjóður er þriðji stærsti lífeyrissjóður landsins með eignir upp á 455 milljarða króna, rúmlega 46 þúsund virka sjóðfélaga og yfir 20 þúsund lífeyrisþega. Samtals eiga yfir 200 þúsund einstaklingar réttindi í sjóðnum.