16. desember 2019

Gildi-lífeyrissjóður hlýtur jafnlaunavottun

Gildi lífeyrissjóður hefur hlotið vottun um að nýtt jafnlaunakerfi sjóðsins standist jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012. Vottunin er stórt skref í vinnu sem hófst um mitt sumar við að innleiða formlegt jafnlaunakerfi, sem byggir á óformlegu eldra kerfi sem átti að tryggja að jöfn laun væru greidd fyrir sambærileg störf innan Gildis, sama hver sinnti þeim. Við smíði og innleiðingu á nýju jafnlaunakerfi var staðfest að sú áhersla hafði skilað árangri því í launagreiningu mældist kynbundinn launamunur innan Gildis nánast ekki til staðar og langt innan við þau 2,5% markmið sem sjóðurinn hefur nú sett sér.
Staðfesting á fyrri áherslum

Samkvæmt lögum þurfti Gildi að innleiða vottað jafnlaunakerfi eigi síðar en árið 2022. Stjórnendur sjóðsins lögðu engu að síður áherslu á að klára verkefnið á þessu ári en með því vildu þeir staðfesta áherslur sjóðsins í jafnlauna- og jafnréttismálum. Við smíði og innleiðingu á formlegu jafnlaunakerfi var meðal annars innleidd ný jafnlaunastefna, en einnig voru rýndir mjög nákvæmlega ferlar sem tengjast launaákvörðunum, ráðningum nýrra starfsmanna o.s.frv. Í ljós kom að litlar breytingar þurfti að gera á fyrirliggjandi kerfi sjóðsins.
Liður í langri vegferð

„Það er engu að síður gagnlegt að fara í gegn um innleiðingarferlið og þá rýni sem því fylgdi“ segir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis. „Hún staðfestir að áhersla okkar á jafnréttis- og jafnlaunamál síðustu ár og áratugi hefur skilað sér í verki. Það að sjóðurinn sé nú kominn með vottun þess efnis er ekki bara gott afspurnar heldur er til dæmis gott fyrir starfsfólk sjóðsins að hafa staðfestingu á að þessi mál eru í lagi á vinnustaðnum þeirra. Þessi vottun er hins vegar hvorki upphafið né endirinn í jafnréttis- og jafnlaunamálum hjá Gildi því nú þegar kerfið hefur verið innleitt þarf að reka það og viðhalda. Með því á að vera tryggt að jafnréttismálin verða bæði sjálfsagður og eðlilegur hluti af starfsemi sjóðsins hér eftir sem hingað til“.



Það var Jón Karlsson, vottunarstjóri vottunarstofunnar iCert sem afhenti Árna Guðmundssyni, framkvæmdastjóra Gildis, staðfestingu á að sjóðurinn hefur fengið jafnlaunavottun. Með á myndinni eru Bjarney Sigurðardóttir skrifstofustjóri og Aðalbjörn Sigurðsson, forstöðumaður upplýsingamála, sem leiddi starfið við smíði á jafnlaunakerfi Gildis.