13. febrúar 2018

Gildi kaupir ekki hlut í Arion banka að svo stöddu

Stjórn Gildis hefur ákveðið að kaupa ekki hlut í Arion banka að svo stöddu. Ákvörðunin var tekin eftir að viðræður fulltrúa Gildis og Kaupskila skiluðu ekki árangri.

Miðvikudaginn 24. janúar síðastliðinn barst Gildi tilboð um kaup á hlut í Arion banka af Kaupskilum. Fyrir lá að Gildi hafði stuttan tíma til að meta fjárfestinguna.

Gildi óskaði eftir að fá meiri tíma til að meta fjárfestinguna, ekki síst til að fá tækifæri til að leggja mat á endurskoðað uppgjör Arion banka sem birt verður á morgun (14. febrúar). Ekki náðist saman um það. Þá ríkir enn talsverð óvissa um skráningu Arion banka á markað og einnig skortir að mati sjóðsins skýrari sýn á framtíðarrekstur bankans.

Mat sjóðsins var að of mikil óvissa og áhætta fælist nú í kaupunum fyrir sjóðfélaga Gildis. Viðræðum um kaup á hlut í Arion banka var því slitið.