19. mars 2018

Gildi greiddi atkvæði gegn starfskjarastefnu N1

Fulltrúar Gildis-lífeyrissjóðs greiddu atkvæði gegn starfskjarastefnu N1 á aðalfundi félagsins sem haldinn var síðdegis í dag. Afstaða Gildis til málsins var útskýrð í eftirfarandi bókun sem fulltrúar sjóðsins lögðu fram á fundinum.

Bókun:

  1. Samkvæmt hluthafastefnu Gildis telur sjóðurinn rétt við ákvörðun launa forstjóra að líta til innri þátta félags, launadreifingar innan þess og launa sem ætla má að forstjóra bjóðist á þeim markaði sem félagið starfar á. Í þessu samhengi leggur sjóðurinn áherslu á heildarlaun. Ef félög ákveða að notast við árangurstengd launakerfi er eðlilegt að föst laun séu að sama skapi lægri, samanborið við félög þar sem slík árangurstengd kerfi eru ekki til staðar.

  2. Samkvæmt hluthafastefnu Gildis er lögð áhersla á að starfskjarastefnur greini hvernig þær styðji við langtíma hagsmuni og sjálfbærni félaga og að sett séu fram skýr skilyrði og forsendur fyrir föstum og árangurstengdum launagreiðslum. Mikilvægt er að mælikvarðar séu viðeigandi og á grundvelli þátta sem stjórnendur geta haft áhrif á og/eða stýrt í störfum sínum. Jafnframt er gert ráð fyrir að greint sé frá því hversu háar árangurstengdar launagreiðslur geta orðið, þannig að hámörk og takmörk komi fram í stefnunni sjálfri. Því er beint til stjórnar félagsins að taka starfskjarastefnu félagsins til heildarendurskoðunar með þessi atriði meðal annars í huga.

  3. Mikilvægt er að stjórn félagsins rökstyðji hverju sinni starfskjör stjórnenda og fjárhæð þeirra, þ.m.t. breytilega launaliði ef þeim er fyrir að fara og geri grein fyrir breytingum á milli ára ásamt sundurliðun á föstum og breytilegum greiðslum. Af þessum sökum er mikilvægt að gerð sé skýrsla um framkvæmd starfskjarastefnu og að hún sé birt með góðum fyrirvara fyrir aðalfund. Gerð er athugasemd við að slíkum upplýsingum hafi ekki verið komið opinberlega á framfæri þegar eftir því var leitað í opinberri umræðu undanfarna daga. Því er beint til stjórnar félagsins að slík skýrsla verði hér eftir birt með góðum fyrirvara fyrir aðalfund félagsins, m.a. með hliðsjón af þeim atriðum sem fram koma í hluthafastefnu Gildis.


Starfskjarastefnan var engu að síður samþykkt á fundinum með þeirri breytingu að hún skuli endurskoðuð innan tveggja til fjögurra mánaða.

Þessu til viðbótar lögðu fulltrúar Gildis fram tillögu um að komið verði á tilnefningarnefnd innan félagsins, sem hafi það hlutverk að undirbúa stjórnarkjör á aðalfundum félagsins. Sú tillaga var samþykkt með þorra greiddra atkvæða.