11. október 2017

Formaður VM vill ábyrgari og málefnalegri umræðu um lífeyriskerfið

Guðmundur Ragnarsson formaður VM – félags vélstjóra og málmtæknimanna og stjórnarmaður í Gildi-lífeyrissjóði skrifar fróðlega grein um lífeyriskerfið á vefritið Miðjuna. Þar kallar hann eftir ábyrgri og málefnalegri umræðu um kerfið í stað háværrar gagnrýni sumra sem hæst hafi í fjölmiðlum og endurspegli litla eða enga þekkingu þeirra á málefninu.
Grunnskilning skorti

„Grunnskilningurinn verður að vera á hreinu á lífeyrissjóðakerfinu, sem er að um leið og farið er að greiða einhverjum meira út úr almenna lífeyrissjóðakerfinu, en viðkomandi hefur lagt til sjóðanna, þá þarf að taka þá peninga af öðrum sem eiga fjármuni þar inni. Ég hef rekið mig ótrúlega oft á að þeir sem eru háværastir í gagnrýninni virðast vita lítið eða ekkert um lífeyriskerfið.“

Guðmundur segir ákall sumra eftir beinu lýðræði innan lífeyrissjóða hávært en enginn hafi samhliða bent á hvernig eigi að útfæra það. Hann tekur Gildi sem dæmi og spyr hvort allir þeir rúmlega 217 þúsund einstaklinga sem þar eiga mismikil réttindi, eigi að kjósa stjórnarmenn? Sjálfur eigi hann réttindi í fjórum sjóðum og spyr hvort hann eigi að hafa sama vægi í kosningum í þeim öllum, þótt 98% réttinda hans séu hjá Gildi?
Gagnrýnendur komi með lausnir

Allar breytingar á lífeyrissjóðakerfinu þurfi að vera vel útfærðar og þaulhugsaðar til að valda ekki skaða fyrir þá sem þar eigi réttindi. „Hvernig viljum við sem best tryggja okkur öllum áhyggjulaust ævikvöld og afkomutryggingu ef við verðum að fara af vinnumarkaði? Hafi þessir gagnrýnendur aðrar og betri lausnir þá eiga þeir að koma fram með þær. Ég veit fyrir mig, að ég vil ekki eiga það undir misvitrum stjórnmálamönnum eða pólitískum stefnum, hverju mér verður skammtað til að lifa af í ellinni,“ segir Guðmundur.
Fólk kynni sér réttindi sín

Í lokin tekur Guðmundur dæmi af sjálfum sér um hvernig lífeyriskerfið virkar. Hann eigi mjög góð lífeyrisréttindi eftir áratuga greiðslur í verðtryggðan lífeyrissjóð. „Uppsöfnuð innistæða mín mun verða búin þegar ég verð um 83 ára gamall. Ef ég hins vegar verð 99 ára mun ég fá meira út úr sjóðnum en ég hafði safnað inn sjálfur. Þá peninga fæ ég frá þeim sem falla frá fyrr. Ef dæmið snýst við, ef ég fell frá fyrir sjötugt, mun ég tryggja greiðslur og framfærslu fyrir aðra með minni inneign sem ég skil eftir mig. Svona virkar samtryggingin fyrir okkur sem náum að ljúka starfsævinni á vinnumarkaði. Ég ætla ekki að fara að fjalla um örorkugreiðslurnar til þeirra sem verða fyrir því óláni að þurfa að fara af vinnumarkaði og fá greitt ævilangt út úr sínum lífeyrissjóði, sem er sennilega besta og ódýrasta afkomutrygging sem hægt er að fá. Inngreiðsla í lífeyrissjóð er ekki eins og inneign á bankabók og er ekki erfanleg. Það verður að hugsa þetta sem samtryggingu eða afkomutryggingu.“

Grein Guðmundar Ragnarssonar á Miðjunni.