Hrein eign Gildis-lífeyrissjóðs í árslok 2023 nam samtals 991,9 milljörðum króna og jókst um 78,6 ma.kr. á milli ára. Hrein nafnávöxtun samtryggingardeildar var 6,7% samkvæmt ársuppgjöri sjóðsins sem þýðir að hrein raunávöxtun var -1,2%. Þetta er meðal þess sem kemur fram í auglýsingu Gildis um afkomu sjóðsins sem birtist í dagblöðum landsins þessi dægrin:
Hrein nafn – og raunávöxtun samtryggingardeildar og séreignaleiða Gildis:
Hrein raunávöxtun |
---|
-1,2% |
-2,1% |
-2,5% |
0,2% |
Gildi er eins og aðrir lífeyrissjóðir langtímafjárfestir sem horfir til ávöxtunar yfir lengri tíma. Þegar það er gert kemur í ljós að meðalraunávöxtun samtryggingardeildar síðustu fimm ár nemur 4,1%, tíu ára hrein raunávöxtun er 4,5% og hrein raunávöxtun síðustu tuttugu ára nemur að meðaltali 3,5%.
Krefjandi ár
Markaðsaðstæður voru áfram krefjandi á árinu 2023 eins og árið áður, en þó varð nokkur viðsnúningur á erlendum mörkuðum. Erlend verðbréf sjóðsins skiluðu jákvæðri ávöxtun en styrking krónunnar gagnvart bandaríkjadal og evru dró úr ávöxtun erlendra eigna á árinu. Innlend hlutabréf skiluðu heilt yfir neikvæðri ávöxtun en réttu þó nokkuð úr kútnum undir lok árs. Innlend skuldabréf sjóðsins, sem eru að stærstum hluta verðtryggð, skiluðu jákvæðri ávöxtun en verðbólga tók loks að hjaðna lítillega á seinni helmingi ársins eftir þriggja ára tímabil hækkandi verðbólgu og vaxta.
Um sjóðinn
Gildi er fjölmennasti lífeyrissjóður landsins þar sem ríflega 271 þúsund sjóðfélagar áttu réttindi í lok árs 2023. Rúmlega 7.900 launagreiðendur greiddu iðgjöld til Gildis fyrir rúmlega 59.000 sjóðfélaga á síðasta ári. Lífeyrisgreiðslur sjóðsins á árinu 2023 námu alls 30,5 mö.kr., en voru 23,7 ma. kr. árið 2022. Rekstrarkostnaður sjóðsins nam 1,4 mö.kr. á árinu 2023 en var 1,3 ma.kr. árið áður.
Ársfundur 24. apríl
Farið verður ítarlega yfir afkomu Gildis á ársfundi sjóðsins sem haldinn verður klukkan 17:00, miðvikudaginn 24. apríl næstkomandi á Hótel Reykjavík Grand. Fundinum verður einnig streymt á heimasíðu sjóðsins. Dagskrá fundarins og nánara fyrirkomulag verður auglýst síðar.