26. mars 2023

Eignir Gildis í árslok 2022 námu 913 milljörðum króna

Hrein eign Gildis-lífeyrissjóðs í árslok 2022 var samtals 913 milljarðar króna og lækkaði um 2,8 milljarða á milli ára. Hrein nafnávöxtun samtryggingardeildar var neikvæð um 2,2% sem þýðir að hrein raunávöxtun var -10,6% samkvæmt ársuppgjöri sjóðsins. Þetta er meðal þess sem kemur fram í auglýsingu Gildis um afkomu sjóðsins sem birtist í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu í gær.

Hrein nafn – og raunávöxtun samtryggingardeildar og séreignaleiða Gildis:

Hrein nafnávöxtun Hrein raunávöxtun
Samtryggingardeild -2,2% -10,6%
Framtíðarsýn 1 -5,8% -13,9%
Framtíðarsýn 2 -4,4% -12,6%
Framtíðarsýn 3 9,1% -0,2%

Gildi eins og aðrir lífeyrissjóðir er langtímafjárfestir sem horfir til ávöxtunar yfir lengri tíma. Þegar það er gert kemur í ljós að meðalraunávöxtun samtryggingardeildar síðustu fimm ár nemur 4,8%, tíu ára hrein raunávöxtun er 5,1% og hrein raunávöxtun síðustu tuttugu ára nemur að meðaltali 4,3%.

Erfitt ár
Markaðsaðstæður voru erfiðar á árinu 2022 og fáir eignaflokkar skiluðu jákvæðri ávöxtun. Erlend og innlend hlutabréf skiluðu heilt yfir neikvæðri ávöxtun, að undanskildum óskráðum fjárfestingum í hlutabréfum, framtakssjóðum, fasteignasjóðum og innviðasjóðum. Þá leið ávöxtun skuldabréfa sjóðsins fyrir neikvæð áhrif hækkandi vaxtastigs og aukinnar verðbólgu. Styrking erlendra gjaldmiðla gagnvart krónunni dró úr neikvæðri ávöxtun ársins.

Um sjóðinn
Gildi er fjölmennasti lífeyrissjóður landsins þar sem tæplega 264 þúsund sjóðfélagar áttu réttindi í lok árs 2022. Rúmlega 7.500 launagreiðendur greiddu iðgjöld til Gildis fyrir tæplega 57.600 sjóðfélaga á síðasta ári. Lífeyrisgreiðslur sjóðsins á árinu 2022 námu ríflega 23,7 milljörðum kr., en voru 21,0 ma. kr. árið 2021. Rekstrarkostnaður sjóðsins nam ríflega 1,3 milljörðum króna á árinu 2022 en var tæplega 1,2 milljarðar árið áður.

Ársfundur 27. apríl
Farið verður ítarlega yfir afkomu Gildis á ársfundi sjóðsins sem haldinn verður klukkan 17:00, fimmtudaginn 27. apríl næstkomandi á Hótel Natura í Reykjavík. Fundinum verður einnig streymt á heimasíðu sjóðsins. Nánari upplýsingar um dagskrá og fyrirkomulag fundarins verður auglýst síðar.