28. desember 2018

Breyttar reglur um sjóðfélagalán

Hámarks veðhlutfall sjóðfélagalána Gildis verður lækkað í 70% um áramót en hámarkið hefur verið 75% síðustu misseri. Eftir breytinguna geta sjóðfélagar fengið grunnlán með allt að 60% veðhlutfalli og viðbótarlán upp að 70% veðhlutfalli.

Ákvörðun um þessa breytingu er meðal annars byggð á varúðarsjónarmiði vegna mikilla verðhækkana á fasteignamarkaði á undanförum árum og vegna aukinnar ásóknar í lán hjá Gildi að undanförnu. Horft er til þess að hlutfall lána til sjóðfélaga nálgist nú þau viðmið sem sett eru í fjárfestingarstefnu sjóðsins. Fjárfestingarstefna Gildis miðar að því að halda eignum sjóðsins í tilteknum hlutföllum með það að markmiði að hámarka ávöxtun eigna sjóðsins að teknu tilliti til áhættu.

Sjóðfélagalán verða veitt samkvæmt nýjum reglum frá og með miðvikudeginum 2. janúar 2019.