7. september 2023

Aukin upplýsingagjöf til nýrra sjóðfélaga

Gildi-lífeyrissjóður sendir í vikunni upplýsingar til nýrra sjóðfélaga um réttindi þeirra og þá þjónustu sem sjóðurinn býður upp á.

Margvísleg réttindi fylgja því að greiða í Gildi-lífeyrissjóð. Sjóðfélagar vinna sér meðal annars inn rétt til ellilífeyris og njóta tryggingaverndar skerðist starfsgeta þeirra vegna veikinda eða slysa. Einnig hafa þeir rétt á að taka lán hjá sjóðnum og geta stofnað þar til séreignarsparnaðar.

Upplýsingar um allt þetta og fleira má finna í bréfi sem þeir sem greitt hafa iðgjöld til sjóðsins í fyrsta skipti á þessu ári fá sent í vikunni. Er það von Gildis að með því aukist bæði skilningur og áhugi á sjóðnum og lífeyriskerfinu í heild.

Það var auglýsingastofan Brandenburg sem hannaði bréfið þar sem markmiðið er að veita á forsíðu einfaldar og skýrar upplýsingar um þjónustu sjóðsins. Á baksíðu eru síðan veittar ítarlegri upplýsingar. Bréfið má finna bæði á íslensku og ensku hér fyrir neðan.

Slík bréf verða á næstu misserum send nýjum sjóðfélögum eftir að þeir greiða iðgjöld til sjóðsins í fyrsta skipti.