4. apríl 2018

Ársskýrsla Gildis 2017

Ársskýrsla Gildis-lífeyrissjóðs 2017 er komin út og hefur hún verið birt á vef sjóðsins. Þar er gerð grein fyrir starfsemi Gildis og afkomu á síðasta ári, en nafnávöxtun sjóðsins nam 7,7% og hrein raunávöxtun var 5,8%.

Góð afkoma ársins skýrist að stórum hluta af góðri ávöxtun erlendra hlutabréfa sem og innlendra skuldabréfa. Þessi góða ávöxtun, ásamt aðhaldi í rekstri sjóðsins, leiddi til þess að hrein eign sjóðsins hækkaði um tæplega 46 milljarða króna á árinu 2017, fór úr 471,7 ma.kr. í 517,4 ma.kr.

Breyting á hreinni eign Gildis 2017 (ma.kr.)Tryggingafræðileg staða sjóðsins batnaði einnig, fór úr -2,7% í lok árs 2016 í -1,5% í árslok 2017.

Ef afkoman til lengri tíma er skoðuð kemur í ljós að meðalnafnávöxtun síðustu fimm árin nemur 7,6% en ef horft er tíu ár aftur í tímann nemur hún 5,2%.

Farið verður ítarlega yfir afkomu Gildis á ársfundi sjóðsins sem haldinn verður á Grand Hótel Reykjavík klukkan 17:00 fimmtudaginn 12. apríl næstkomandi.