Niðurstaða álitsgerðar LEX, sem unnin var fyrir Gildi-lífeyrissjóð vegna sjóðfélagalána í Grindavík er afdráttarlaus sú að lífeyrissjóðum sé ekki heimilt að afskrifa vexti og verðbætur með almennum hætti hjá lántökum. Sjóðnum er heimilt að taka til sérstakrar skoðunar einstaklingsbundnar aðstæður. Í því sambandi er bent á að lífeyrissjóðum er óheimilt að ráðstafa fjármunum í öðrum tilgangi en að greiða lífeyri.
Sértækar aðgerðir skoðaðar eftir því sem heimilt er
Gildi mun meta stöðu einstakra lántakenda sjóðsins frá Grindavík og skoða sérstaklega hvernig hægt sé að koma til móts við þá sem höllum fæti standa út frá greiðslugetu og veðstöðu. Staðan á svæðinu er enn um margt óljós og erfitt er að meta hvenær til slíkra aðgerða kemur. Þetta er niðurstaða stjórnar Gildis sem byggir meðal annars á álitsgerð LEX þar sem fjallað var um heimildir lífeyrissjóða til almennra niðurfellinga vegna náttúruhamfaranna í Grindavík.
Minnt er á að sjóðurinn hefur þegar veitt lántakendum sex mánaða greiðsluskjól. Í því felst að gjalddögum er einfaldlega frestað þannig að lánið lengist um allt að sex mánuði. Frestunin hefur þar með nánast engin áhrif á mánaðarlegar greiðslur eftir að frystingu lýkur.