11. maí 2020

Afkoman fyrstu fjóra mánuði ársins og aðgerðir vegna Covid-19

Nafnávöxtun Gildis á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2020 nam 3,5% sem þýðir 3,0% raunávöxtun.  Hrein eign samtryggingardeildar sjóðsins í lok apríl nam rúmum 683,6 milljörðum króna samanborið við 655,7 milljarða í lok árs 2019. Nafnávöxtun séreignarleiða sjóðsins er einnig jákvæð á fyrstu fjórum mánuðum ársins, en Framtíðarsýn 1 hefur hækkað um 3,2% frá áramótum, Framtíðarsýn 2 um 4,5% og Framtíðarsýn 3 um 0,9%. Þetta er staðan þrátt fyrir miklar sveiflur á mörkuðum og í efnahagslífinu í heild vegna áhrifa Covid-19. Hátt hlutfall eigna í erlendri mynt hefur mikið að segja hvað ávöxtun varðar þar sem af er ári en einnig hefur mikil verðhækkun á innlendum ríkisskuldabréfum vegið á móti áhrifum verðlækkana á hlutabréfamörkuðum. Miklar sveiflur einkenna markaði um þessar mundir og þrátt fyrir að staðan eftir fyrstu fjóra mánuði ársins sé vel ásættanleg miðað við þau áföll sem dunið hafa yfir, er erfitt að segja til um hvernig þróunin næstu mánuði á eftir að verða.
Sveiflur á verðbréfamörkuðum

Í stuttu máli má segja að útbreiðsla Covid-19 hafi haft mikil áhrif á öllum mörkuðum um heim allan. Þegar verst lét hafði heimsvísitala hlutabréfa (MSCI World) lækkað um 31,8% frá áramótum og íslenska hlutabréfavísitalan (OMX Iceland) um 21,6%. Á móti vegur veiking íslensku krónunnar sem hafði í lok apríl veikst um 17,3% gagnvart dollar. Einnig hefur orðið viðsnúningur bæði á innlendum og erlendum hlutabréfamörkuðum á allra síðustu vikum og við það bætist að innlend skuldabréf hafa hækkað talsvert í verði. Þegar allt er tekið saman hafa áhrifin á eignasafn Gildis því orðið minni en gera hefði mátt ráð fyrir í upphafi Covid-19 faraldursins. Rétt er þó að ítreka að óvissan um áframhaldandi þróun á mörkuðum er mikil og neikvæðar afleiðingar faraldursins hugsanlega ekki komnar fram að öllu leyti.
Aðgerðir Gildis vegna Covid-19

Gildi-lífeyrissjóður hefur gripið til margvíslegra aðgerða vegna útbreiðslu Covid-19. Opnað hefur verið fyrir frystingu á afborgunum sjóðfélagalána og hafa þegar um 155 lántakendur nýtt sér það úrræði. Enn fremur hafa um 190 sjóðfélagar sótt um sérstaka útgreiðslu á séreignarsparnaði.  Starfsfólk Gildis hefur þurft að breyta vinnulagi hratt síðustu vikur til að geta haldið úti þjónustu við sjóðfélaga, þrátt fyrir samkomubann og tveggja metra reglu, og hefur fjarþjónusta tímabundið að fullu tekið við af hefðbundinni þjónustu eftir að loka þurfti fyrir heimsóknir á skrifstofur sjóðsins. Vonir standa til að hægt verði stíga einhver skref til að opna skrifstofur sjóðsins áður en langt um líður.

Stjórn Gildis og starfsfólk fylgist náið með framvindu mála á öllum sviðum sem tengjast starfsemi sjóðsins og eru hagsmunir sjóðfélaga alltaf hafðir í fyrirrúmi í öllum ákvarðanatökum.