27. apríl 2023

Niðurstaða ársfundar 2023

Tæplega eitt hundrað sátu ársfund Gildis-lífeyrissjóðs 2023 sem fram fór Hótel Reykjavík Natura klukkan fimm í dag. Á fundinum fór Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri sjóðsins, yfir rekstur Gildis og afkomu á árinu 2022. Heildareignir sjóðsins í árslok námu 913 milljörðum króna en þær voru 916 milljarðar í byrjun ársins. Erfiðar markaðsaðstæður á árinu 2022 leiddu til þess að hjá samtryggingardeild sjóðsins var hrein nafnávöxtun -2,2% sem þýddi að hrein raunávöxtun var neikvæð um 10,6%.

Tryggingafræðileg staða sjóðsins, sem var jákvæð um 1,4% í upphafi ársins, var neikvæð um 3,9% í árslok. Sjóðurinn greiddi tæpa 24 milljarða króna í lífeyri á árinu 2022. Hægt er að kynna sér upplýsingar um rekstur sjóðsins, ávöxtun og eignir í ítarlegri ársskýrslu sem lögð var fram og kynnt á fundinum og er einnig að finna á heimasíðu sjóðsins..

Framkvæmdastjóraskipti
Á fundinum tilkynnt Stefán Ólafsson, fráfarandi stjórnarformaður Gildis, að Árni Guðmundsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Gildis frá stofnun sjóðsins árið 2005, hafi óskað eftir að láta af störfum í árslok. Stjórn Gildis hefur þegar ráðið Davíð Rúdólfsson, núverandi forstöðumann eignastýringar Gildis, sem framkvæmdastjóra og mun hann taka við af Árna um næstu áramót.

Breytingar á samþykktum
Boðaðar breytingar á samþykktum sjóðsins voru staðfestar á ársfundinum. Breytingar voru gerðar á grein 9.12 en hún fjallar um það hvernig framlag ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða skuli nýtt. Síðustu ár hefur framlagið verið nýtt til að auka réttindaávinnslu sjóðfélaga um 4% sem og að hækka lífeyrisgreiðslur (aðrar en barnalífeyri) um 4%. Eftir breytinguna verða réttindin á næsta ári hækkuð um 3,6% og lífeyrisgreiðslur um 3,0%. Hægt er að kynna sér rökstuðning fyrir breytingunni hér.

Skipan stjórnar og kosning í launanefnd
Eftirtaldir fulltrúar voru kosnir eða skipaðir í stjórn á fundinum.

Fulltrúar aðildarfélaga launamanna: Perla Ösp Ásgeirsdóttir (ný í stjórn) og Stefán Ólafsson.

Fulltrúar Samtaka atvinnulífsins: Björgvin Jón Bjarnason (nýr í stjórn) og Freyja Önundardóttir.

Eftir ársfundinn er stjórn sjóðsins þannig skipuð:

  • Björgvin Jón Bjarnason, formaður
  • Stefán Ólafsson, varaformaður
  • Árni Bjarnason
  • Bjarnheiður Hallsdóttir
  • Freyja Önundardóttir
  • Gundega Jaunlinina
  • Perla Ösp Ásgeirsdóttir
  • Sverrir Sverrisson


Gylfi Gíslason og Margrét Valdimarsdóttir hættu bæði í stjórn og er þeim þökkuð góð störf í þágu sjóðsins og sjóðfélaga síðustu ár.

Kolbeinn Gunnarsson og Þórir Jóhannesson voru kosnir í launanefnd sjóðsins af fulltrúum launamanna. SA tilnefndi Stefaníu Kolbrúnu Ásbjörnsdóttur í nefndina en til viðbótar á stjórnarformaður Gildis (nú Björgvin Jón Bjarnason) sæti í nefndinni.

Aðrar breytingar og framkvæmd fundarins
Á fundinum var ný starfskjarastefna sjóðsins kynnt og staðfest. Einnig var staðfest að Deloitte ehf. verður áfram endurskoðandi sjóðsins. Fundarstjóri var Guðbjörg Helga Hjartardóttir, lögmaður hjá Logos og fundarritari Árni Hrafn Gunnarsson, yfirlögfræðingur Gildis.


Vakin er athygli á að hægt er að horfa á upptöku af fundinum hér.