1. nóvember 2022

Vegna umfjöllunar í fjölmiðlum síðustu daga um málefni ÍL-sjóðs

Fimmtudaginn 20. október boðaði fjármála- og efnahagsráðherra í yfirlýsingu að hann hygðist hefja samningaviðræður við eigendur skuldabréfa ÍL-sjóðs um uppgjör á eignum. Gangi ekki að semja verði sjóðnum slitið með lagasetningu fyrir áramót.

Að morgni fimmtudagsins 20. október var markaðsvirði eigna Gildis í skuldabréfum ÍL-sjóðs um 109 milljarðar króna. Bréfin eru í þremur flokkum – HFF24, HFF34 og HFF44 - þar sem tölurnar setja til um líftíma skuldabréfanna. Í kjölfar yfirlýsingar fjármála- og efnahagsráðherra hafa skuldabréf í flokkunum þremur lækkað sem hér segir:

  • HFF24: -1,4%
  • HFF34: -8,6%
  • HFF44: -15,8%

Verðlækkun skuldabréfa Gildis í flokkunum þremur frá tilkynningu fjármála- og efnahagsráðherra nemur nú um 14,7 milljörðum króna. Málið hefur þegar haft áhrif á greiðslur úr séreignardeild Gildis þar sem lækkað gengi bréfanna hefur verið reiknað inn í stöðu og ávöxtun Framtíðarsýnar 1 og 2. Mögulega mun málið einnig hafa áhrif á greiðslur úr samtryggingardeild á komandi mánuðum.

Rétt er að taka fram að heildar áhrif á stöðu Gildis, og þar með greiðslur úr sjóðnum, koma ekki í ljós fyrr en málið hefur verið leitt til lykta.

Frekari upplýsingar verða settar inn hér á heimasíðu Gildis þegar þær liggja fyrir.

Til skýringar
Tap eigenda bréfa ÍL-sjóðs stafar af því þau voru verðlögð miðað við 3,75% verðtryggða vexti út líftíma bréfanna. Ef bréfin væru greidd upp m.v. stöðu þeirra í dag væri hægt að ávaxta þá fjármuni á um 1,7-1,8% með kaupum á verðtryggðum ríkisskuldabréfum. Í þessum mun felst tap eigenda HFF bréfa.

Nánar um yfirlýsingu fjármála- og efnahagsráðherra
Fjármálaráðherra boðaði á dögunum að hann hyggist ganga til samninga við eigendur skuldabréfa gamla Íbúðalánasjóðs (nú ÍL-sjóðs) um uppgjör á þeim. Ella verði sjóðurinn settur í þrot og skuldbindingar gerðar upp á núvirði. Ráðherra boðaði að með þessu megi spara ríkissjóði um 150 milljarða króna til framtíðar.