16. desember 2022

Sjóðfélagafundur Gildis 2022

Ríflega sextíu gestir sátu sjóðfélagafund Gildis sem fram fór á Grand Hótel Reykjavík klukkan 17 í gær þar sem m.a. var farið yfir ávöxtun, rekstur og stöðu sjóðsins á árinu. Þar kom fram að hrein nafnávöxtun á fyrstu ellefu mánuðum ársins nam -1,2% sem þýðir að hrein raunávöxtun var -10,2%. Hrein eign samtryggingardeildar í lok nóvember nam 912 milljörðum króna en var 908 milljarðar um síðustu áramót. Áætluð tryggingafræðileg staða sjóðsins stóð í lok nóvember í -3,3%.

Samþykktir staðfestar

Á fundinum var upplýst að fjármálaráðherra staðfesti 13. desember breytingar á samþykktum Gildis sem afgreiddar voru á ársfundi sjóðsins í apríl. Samkvæmt breytingunum aukast réttindi allra sjóðfélaga en þau hækka mest hjá þeim sem elstir eru. Þannig hækka áunnin réttindi 67 ára og eldri auk örorku- og makalífeyrisþega frá áramótum um 10,5%.

ÍL-sjóður: Ekki forsenda fyrir samningaviðræðum

Á fundinum var farið yfir stöðuna varðandi málefni IL-sjóðs, þar á meðal helstu atriði í lögfræðiálitum Logos frá 23. nóvember síðastliðnum og Róberti Spanó frá 4. desember. Niðurstaðan í báðum álitum er að staða lífeyrissjóðanna gagnvart ríkinu í málinu sé afar sterk. Málið var rætt á stjórnarfundi Gildis í gærmorgun og eftir ítarlega yfirferð var niðurstaða stjórnar að ekki séu forsendur fyrir því að ganga til samninga um ÍL-sjóðs málið á þeim forsendum sem Fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt upp með.

Breytingar á lögum um lífeyrissjóði

Að lokum var á fundinum farið yfir þær breytingar sem taka gildi á lögum um lífeyrissjóði um áramótin, sem eru þær helstar að 15,5% iðgjald er lögfest sem og ákvæði um tilgreinda séreign. Einnig að allar greiðslur úr lífeyriskerfinu sem byggja á iðgjaldi að 15,5% skerða frá áramótum greiðslur úr almannatryggingakerfinu, hvort sem þær koma úr samtryggingarsjóðum, tilgreindri séreign eða séreignarleiðum frjálsu lífeyrissjóðanna.

Sjóðfélagafundur Gildis 2022

Framsögumenn á fundinum voru Stefán Ólafsson, Árni Guðmundsson, Davíð Rúdólfsson og Árni Hrafn Gunnarsson. Fundarstjóri var Aðalbjörn Sigurðsson.