1. september 2017

Hluthafastefna Gildis gegnsæ og skýr

Vegna fréttar á visir.is er ástæða til að vekja athygli á að Gildi-lífeyrissjóður birtir árlega yfirlit um atkvæðagreiðslu og tillögugerð sjóðsins á aðalfundum skráðra hlutafélaga. Þetta er gert á grundvelli hluthafastefnu sjóðsins til að auka gegnsæi um störf Gildis sem hluthafa. Yfirlitið sýnir m.a. hvernig Gildi greiddi atkvæði um þær tillögur sem bornar voru undir hluthafa á aðalfundum og hvernig sjóðurinn ráðstafaði atkvæðum sínum við stjórnarkjör í þeim tilvikum sem ekki var sjálfkjörið í stjórn.

Upplýsingar um atkvæðagreiðslu Gildis á aðalfundum skráðra hlutafélaga á árinu 2017 má sjá hér og fyrir árið 2016 hér.

Gildi hefur á undanförnum misserum lagt fram og fylgt eftir tillögum á aðalfundum ýmissa skráðra hlutafélaga er snúa að gegnsæi og jafnræði hluthafa. Lögð hefur verið áhersla á að tillögur fyrir hluthafafundi séu vel rökstuddar og ekki umfangsmeiri en þörf er á. Sérstaklega hefur þetta átt við þegar um er að ræða hækkun hlutafjár, kaup eigin hlutabréfa og veitingu kauprétta. Þá hefur Gildi hvatt til þess að starfskjarastefnur séu skýrar og greinargóðar og að viðeigandi upplýsingar séu veittar um framkvæmd þeirra.

Hluthafastefna Gildis ásamt Stefnu um ábyrgar fjárfestingar eru hafðar að leiðarljósi við ákvarðanir sjóðsins um fjárfestingar og segir til um hvernig Gildi hyggst beita sér sem fjárfestir og hvernig sjóðurinn mun fylgja fjárfestingum sínum eftir.

Ítarlegar upplýsingar um fjárfestingar Gildis liggja fyrir í ársskýrslu sjóðsins auk þess sem gerð er grein fyrir þeim bæði á ársfundum og sjóðfélagafundum að minnsta kosti tvisvar á ári.