Á fundi sem haldinn var fimmtudaginn 20. september fjallaði stjórn Gildis um fyrirliggjandi drög að starfskjarastefnu N1 þar sem veitt var heimild fyrir allt að sex mánaða kaupauka til forstjóra að gefnum ákveðnum forsendum í rekstri félagsins. Stjórn Gildis var sammála um að engin rök væru fyrir slíkum kaupauka og gerði því athugasemd við tillöguna. Einnig var gerð athugasemd við mögulegar greiðslur við ráðningu og starfslok forstjóra.
Framkvæmdastjóri Gildis kom þessum athugasemdum á framfæri við stjórnarformann N1 í kjölfar fundarins og þeim skilaboðum að stefnan yrði ekki samþykkt í óbreyttri mynd. Ljóst er að fleiri hluthafar voru sömu skoðunar og brást stjórn N1 við og lagði fram nýja tillögu að starfskjarastefnu. Samkvæmt henni getur forstjóri félagsins aldrei fengið meira en sem nemur þriggja mánaða launum í kaupauka og var sú stefna samþykkt á hluthafafundi N1 í morgun. Fulltrúi Gildis greiddi atkvæði með tillögunni enda er um að ræða málamiðlun sem stjórn Gildis getur sætt sig við. Stjórn Gildis ítrekar þó þá skoðun sína að ef félög ákveða að notast við árangurstengd launakerfi er eðlilegt að föst laun séu að sama skapi lægri, samanborið við félög þar sem slík árangurstengd kerfi eru ekki til staðar.
Rétt er að rifja upp að á aðalfundi N1 2018, sem haldinn var 19. mars síðastliðinn, greiddu fulltrúar Gildis atkvæði gegn starfskjarastefnu sem þá lá fyrir fundinum og bókuðu athugasemdir við hana.
Sjá nánar hér.