Í lok síðustu viku birti forsætisráðuneytið skýrslu um umsvif lífeyrissjóða í íslensku efnahagslífi, en hún var unnin af starfshópi sem forsætisráðherra skipaði um mitt síðasta ár. Rétt er að fagna útgáfunni og taka undir með stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða sem bendir á að skýrslan er þarft innlegg í umræðu um stöðu íslenskra lífeyrissjóða.
Í skýrslunni er að finna nokkrar tillögur sem miða að því að bæta vinnubrögð lífeyrissjóða, en tillögurnar snúa meðal annars að samskiptum við þau fyrirtæki sem lífeyrissjóðir fjárfesta í. Í því samhengi má benda á að Gildi hefur síðustu þrjú ár framfylgt hluthafastefnu sjóðsins með markvissum hætti og leggur þar sérstaka áherslu á bætta stjórnarhætti. Þær áherslur snúa m.a. að því að auka jafnræði hluthafa, auka gegnsæi og bæta upplýsingagjöf þeirra félaga sem sjóðurinn fjárfestir í. Þá birtir sjóðurinn á heimasíðu sinni
yfirlit yfir það hvernig hann greiðir atkvæði á hluthafafundum skráðra félaga. Þetta á við um allar framkomnar tillögur sem og stjórnarkjör.
Starfsmenn, stjórnendur og stjórn Gildis leggja áherslu á að veita sjóðfélögum bestu þjónustu sem völ er á hverju sinni. Niðurstöður skýrsluhöfunda verða nýttar til að gera enn betur í þeim efnum.