25. November 2021

Góð afkoma á fyrstu níu mánuðum ársins

Rafrænn sjóðfélaga- og fulltrúaráðsfundur Gildis var haldinn fimmtudaginn 25. febrúar. Á fundinum, sem vegna samkomutakmarkana var að fullu rafrænn, fór Árni Guðmundsson yfir stöðu og starfsemi Gildis á árinu þar sem meðal annars kom fram að hrein nafnávöxtun sjóðsins á fyrstu níu mánuðum ársins nam 11,4% sem þýddi að hrein raunávöxtun var 7,8%. Staða sjóðsins eftir fyrstu níu mánuði ársins kemur annars mjög vel fram í meðfylgjandi mynd:



Í yfirferð Árna kom fram að tryggingafræðilega staða sjóðsins í lok september var +8,3%. Hann fór einnig ítarlega yfir lánveitingar sjóðsins, stöðuna á Jóakim kerfinu, framkvæmd hlutafastefnu og fleiri mál.

Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar Gildis, fór á fundinum yfir fjárfestingastefnu 2022 sem samþykkt var á stjórnarfundi fyrr um morguninn. Helstu breytingar eru að vægi innlendra hlutabréfa hefur verið aukið um 2% á meðan vægi skuldabréfa er minnkað til samræmis. Davíð rakti einnig í yfirferð sinni stöðuna á mörkuðum á fyrstu mánuðum ársins og skýrði hvernig eignasafn samtryggingadeildar er samsett.

Að lokum var komið að Vigfúsi Ásgeirssyni, tryggingastærðfræðingi, sem fór yfir hvernig meðal lífslíkur landsmanna hafa breyst (hækkað) síðustu áratugi, áhrif þess á lífeyriskerfið og hvernig lífeyrissjóðir þurfa að bregðast við.

Þeim sem fylgdust með streymi fundarins bauðst að senda frummælendum fyrirspurnir. Fjölmargar slíkar bárust og var góður tími gefinn til að svara þeim.

Nánari upplýsingar má finna í glærum sem notaðar voru af frummælendum á fundinum.



Fundarstjóri á sjóðfélagafundi Gildis var Aðalbjörn Sigurðsson, forstöðumaður samskipta hjá Gildi. Frummælendur voru Árni Guðmundsson framkvæmdastjóri, Davíð Rúdólfsson, forstöðumaður eignastýringar, Gylfi Gíslason stjórnarformaður  og Vigfús Ásgeirsson tryggingastærðfræðingur.